Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þeir þóttust allt í einu vera að borga mér of mikið“

Mynd: Disney / RÚV

„Þeir þóttust allt í einu vera að borga mér of mikið“

08.02.2021 - 09:37

Höfundar

Ólafur Haukur Símonarson, sem þýddi Disney-myndina Konungur ljónanna, er mjög hlynntur því að talsettar Disney-myndir verði gerðar aðgengilegar á íslensku. Þar þurfi þó kné að fylgja kviði. Hann þýddi margar af uppáhaldsteiknimyndum þúsaldarkynslóðarinnar en lenti svo í niðurskurðarhnífnum.

Konungur ljónanna, eða Lion King eins og hún heitir á frummálinu, er fimmta kvikmyndin sem framleidd var á svokölluðum endurreisnarárum Disney. Margir halda því jafnframt fram að hún tilheyri eins konar gullöld íslenskra þýðinga á teiknimyndum og þegar betur er að gáð er Ólafur Haukur Símonarson skrifaður fyrir allmörgum þeirra.

Það var Ólafur Haukur sem kenndi þúsaldarkynslóðinni að það standa tveir í hverri raun væru vináttulaun (Tommi og Jenni mála bæinn rauðan,1993), lét fuglana „lumbra” á Hroða (Fuglastríðið í Lumbruskógi, 1991), fann feðgunum Guffa og Max íslenskt orðfæri (Guffagrín, 1995) og sá til þess að einhver söng eitt sinn rétt fyrir jólin (Anastasía, 1997). Svona mætti áfram telja en þó ekki mjög lengi. Ólafur Haukur telur að hann hafi þýtt um tíu teiknimyndir á þessum tíma en svo segist hann hafa lent í niðurskurðarhnífnum.

„Þeir þóttust allt í einu vera að borga mér of mikið fyrir mínar þýðingar,“ segir Ólafur og segist hafa frétt og séð að þeir sem síðar voru fengnir til starfans gerðu það fyrir miklu minni pening.

„Sem ég treysti mér ekki til að gera, því þetta var mjög mikil vinna. Svo ég datt alveg út úr þessum bransa.“

Gleymum sorg og sút

Í viðtali við Lestina á Rás 1 segist Ólafur Haukur hafa lagt mikið upp úr þýðingum sínum. Ekki nægði að þýða orð á blaði. Hann horfði til að mynda á Konung ljónanna tvisvar eða þrisvar sinnum, þýddi talmálið fyrst og gaf sér svo rýmri tíma í söngtextana sem gátu verið svolítið basl. Textinn varð að falla tiltölulega vel að munnhreyfingum persónanna og svo reyndist líka stundum nauðsynlegt að búa hreinlega til ný orð. 

„Ég man eftir því að ég var uppi á barnaspítala þegar myndin kom út,” segir Ólafur Haukur. „Þar var einn læknir sem hafði séð myndina með börnunum sínum og hann var svo hrifinn af einni setningu: Gleymum sorg og sút og sinnisgrút.”

Þessi setning er hápunktur viðlagsins í laginu „Hakuna matata” sem þeir félagar Tímon og Púmba syngja. Orðið „sinnisgrútur“ er smíði Ólafs Hauks og virðist af einhverjum undarlegum ástæðum ekki enn hafa ratað í orðabók. Skyldi einhver velkjast í vafa um merkingu þess má klippa það í tvennt, í orðið „sinni” og „grútur” sem leiðir okkur að hugmyndum um gruggugan haus eða botnfall hugsananna. Sinnisgrútur er þannig gagnsætt samheiti við hugarvíl.

„Það þurfti bara að búa til eitthvað orð til að passa þarna í eitthvað hljómbil,” segir Ólafur og hlær. „Og sinnisgrútur er bara ljómandi orð.”

Tækifærissinnaðar bragreglur

„Það er nú meistari Elton John sem samdi tónlistina og þetta er náttúrlega mjög fín músík,” segir Ólafur Haukur. „Tim Rice, hans aðaltextahöfundur, gerði ensku textana. Svo maður getur ekki slett einhverju á borðið sem er óviðeigandi, það verða að vera þokkaleg gæði á því.”

Til gamans má skoða hér hlið við hlið, brot úr erindi „Hakuna Matata” á frummálinu og í þýðingu Ólafs. 

„He found his aroma lacked a certain appeal
He could clear the Savannah after every meal
I'm a sensitive soul, though I seem thick-skinned
And it hurt that my friends never stood downwind”

„Hann var fúll í rassi, það var feimnismál
Þannig flæmdist frá honum sérhver sál
Ég hef viðkvæma lund, þótt leðrið sé seigt
og leið fyrir að það væri, hjá mér sveigt.”

Gæði þýðinga eru kannski að einhverju leyti persónulegt mat en það má þó skemmta sér við að skoða stuðlasetningu í erindunum tveimur sem í meðförum Ólafs er hefðbundnari og nákvæmari.

„Oft og tíðum eru lögin þess eðlis að það er erfitt að koma við svona stuðlasetningu og þá einhvern veginn skautar maður fram hjá því,” segir Ólafur. „En þegar lögin einhvern veginn bjóða upp á að það sé ákveðin reglufesta í textanum þá svona frekar reyni ég að hafa þetta samkvæmt einhverjum bragarreglum. En þær eru oft svona, hvað á ég að segja, frekar tækifærissinnaðar.”

 

Menntamálaráðherra verður að hugsa hærra

Ólafur Haukur segist fagna því eindregið, verði talsettar Disney myndir gerðar aðgengilegar á streymisveitunni Disney+ eins og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur farið fram á.

„Mér finnst það vera mjög af hinu góða. Þetta er auðvitað orðið hluti af okkar menningu þegar búið er að talsetja þetta vel og þýða þetta samviskusamlega,” segir Ólafur. „Það er akkur í því að halda alla vega því skársta til haga fyrir okkur. Og svo náttúrulega eiga Íslendingar að gera almennilegar myndir sjálfir, bæði teiknaðar og leiknar myndir fyrir börn.”

Ólafur segir allt of lítið framleitt af gjaldgengu efni fyrir íslensk börn, í það minnsta fari ekki mikið fyrir því. Þó fram komi stöku myndir ætlaðar ungu fólki þurfi miklu meira af frumsömdu efni.

„Af hverju eru leikhúsin til dæmis alltaf að sýna sömu leikritin? Það er fullt af fólki sem getur búið til skemmtileg leikrit með íslenskum sönglögum en það er alltaf verið að sýna Kardimommubæinn og þessi sömu leikrit.”

Ólafur segir þau leikrit vissulega góðra gjalda verð en bætir því við að það sé óþarfi að sýna sögu mannræningja ár eftir ár eins og það sé góð uppeldisfræði, þó þeir sjái ljósið í lokin.

„Mér finnst barnabókmenntirnar núna hafa tekið virkilega við sér og þeim er sýndur meiri sómi en oft áður,” segir hann.

 „Þar er bjart fram undan, en í myndmiðlun mætti þetta vera miklu meira (...) Menntamálaráðherra verður að hugsa hærra, ekki bara koma Disney inn á heimilin heldur líka koma íslensku efni inn á heimilin, vönduðu.”

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Texta þarf fleira en Disney+

Sjónvarp

Jóhannes Haukur vill forsetann í Disney-málið

Stjórnmál

Lilja skorar á Disney að talsetja og texta efni sitt