Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja Útlendingastofnun hafa horft fram hjá mansali

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús D. Norðdahl
Uhunoma Osayomore, 21 árs maður frá Nígeríu, fer fram á að kærunefnd útlendingamála taki aftur fyrir umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Hann telur að Útlendingastofnun og kærunefndin hafi litið fram hjá því að hann hafi verið fórnarlamb mansals, bæði í heimalandinu og á leiðinni til Íslands.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður Uhunoma, segir að það fari ekki á milli mála að Uhunoma hafi verið seldur og að það hefði haft mikið að segja ef kærunefndin hefði tekið það með í reikninginn.

Ekki tekið tillit til þess að Uhunoma hafi verið fórnarlamb mansals

Í endurupptökubeiðni sem Magnús hefur sent kærunefnd útlendingamála kemur fram að af lýsingu Uhunoma af flóttanum að dæma sé ljóst að hann hafi verið fórnarlamb mansals. Hann furðar sig á því að hvorki Útlendingastofnun né kærunefnd útlendingamála hafi tekið tillit til þess í málsmeðferðinni.

Í úrskurði kærunefndarinnar, þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja Uhunoma um alþjóðlega vernd er staðfest, er ekki talað um að Uhunoma sé fórnarlamb mansals, en hins vegar kemur fram að kærunefndin leggi til grundvallar úrskurðinum að hann hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi í Líbíu. Það segir Magnús að sýni að kærunefndin hafi í raun lagt frásögn Uhunoma til grundvallar en kjósi þó að horfa fram hjá ákveðnum atriðum frásagnarinnar sem ótvírætt bendi til mansals. 

Í endurupptökubeiðninni er vísað til þess að hópur manna í Lagos-borg í Nígeríu hafi boðist til þess að ferja Uhunoma til Líbíu. Hann hafi ekki getað greitt fyrir ferðina en sagst myndu greiða þegar hann kæmi til Líbíu. Þar hafi hann verið framseldur til konu sem greiddi mönnunum fyrir. Hún hafi haft hann í ánauð í fimm mánuði, þar til hún var myrt en þá hafi Uhunoma lent í höndunum á líbískum bónda sem hélt honum í fjárhúsi, lét hann tína melónur og nauðgaði honum ítrekað.

„Þarna gengur umbjóðandi minn kaupum og sölum á milli landa og er því án nokkurs vafa fórnarlamb mansals,“ segir í endurupptökubeiðni Magnúsar: „Af þeirri ástæðu áttu stjórnvöld þegar að taka mið af því atriði í málsmeðferð sinni og meta hvort það hefði áhrif á beitingu tiltekinna lagagreina útlendingalaga til hagsbóta fyrir umbjóðanda minn.“

Þá segist Uhunoma einnig hafa verið fórnarlamb mansals í heimalandinu áður en hann lagði á flótta, enda hafi faðir hans neytt hann í vinnu með ofbeldi, nauðung og hótunum. Hann segist líka hafa horft upp á föður sinn, sem sé vel tengdur inn í nígerísku lögregluna, beita móður sína grófu ofbeldi sem leiddi til dauða hennar. 

Mansal hefði haft töluvert vægi

Magnús telur að málsmeðferð Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála hafi verið ábótavant og ekki í samræmi við þær málsmeðferðarreglur sem gilda um málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Úrskurðurinn sé því ógildanlegur enda hefði mansalshlið málsins haft töluvert vægi við mat á því hvort aðstæður Uhunoma heyrðu undir þær greinar útlendingalaga sem kveða á um dvalarleyfi vegna alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða og mansals. Samkvæmt lögunum er heimilt að veita hugsanlegu fórnarlambi mansals dvalarleyfi í níu mánuði þótt grunnskilyrði um dvalarleyfi séu ekki uppfyllt. Þá má veita þeim sem vitað er til að hafa orðið fyrir mansali endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar sérstaklega stendur á. Enn fremur getur mansal haft áhrif á það hvort talið er tilefni til þess að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.

Undirskriftasöfnun til stuðnings Uhunoma

30.517 manns hafa sett nafn sitt við undirskriftasöfnun til stuðnings Uhunoma þar sem stjórnvöld eru hvött til að veita honum dvalarleyfi hér á landi. Hann lagði á flótta frá Nígeríu árið 2016, 16 ára gamall, og kom til Íslands fyrir tæpu einu og hálfu ári. Hann dvelur nú hjá fósturfjölskyldu hér og í umfjöllun Stöðvar 2 hefur komið fram að hann hafi myndað sterk tengsl við fjölskylduna.  

Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafa synjað Uhunoma um hæli og Magnús segir að kærunefnd útlendingamála hafi jafnframt synjað honum um frestun réttaráhrifa sem feli í sér að nefndin vilji að honum verði komið úr landi með valdi áður en honum gefst tækifæri til þess að bera mál sitt undir dómstóla. Telur Magnús það skjóta skökku við að stjórnvaldið, sem málsókn beinist að, skuli sjálft taka ákvörðun um það hvort gagnaðili megi vera viðstaddur dómsmál sitt. Eðlilegra væri að annar aðili innan stjórnsýslunnar tæki slíka ákvörðun en til þess að svo megi vera þyrfti að koma til lagabreyting. Magnús segist telja aðkallandi að stjórnvöld endurskoði allt kerfið í kringum mál sem þetta. 
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV