Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sósíalisti og kapítalisti bítast um forsetaembættið

08.02.2021 - 01:22
epa08994792 Several people are waiting to vote in the general elections, in Cuenca, Ecuador, 07 February 2021. More than 13 million Ecuadorians are called to the polls to elect president and vice president, 137 assembly members and five representatives of the Andean Parliament.  EPA-EFE/Robert Puglla
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Enginn frambjóðandi fékk meirihluta atkvæða í fyrri umferð forsetakosninga í Ekvador á sunnudag, sem þýðir að efna þarf til annarrar umferðar í apríl, þar sem kosið verður á milli tveggja efstu manna. Frambjóðandi kosningabandalags vinstrimanna, Andrés Arauz, fékk flest atkvæði samkvæmt útgönguspám, sem benda til þess að um eða yfir 35 prósent kjósenda hafi kosið hann. Í öðru sæti var frambjóðandi kosningabandalags á hægri vængnum, Guillermo Lasso, sem samkvæmt spám fékk um 22 prósent atkvæða.

Arauz er 36 ára doktor í hagfræði sem starfað hefur mikið í opinbera geiranum, meðal annars í seðlabanka Ekvadors, auk þess sem hann gegndi ráðherrastöðu í ríkisstjórn Rafaels Correa á árunum 2015 - 2017. 

Væntanlegur keppinautur hans, Lasso, er 65 ára viðskiptafræðingu, bankamaður og fyrrverandi efnahagsráðherra. Hann er að bjóða sig fram til forseta þriðja sinni. 

Báðir lofa betri tíð 

Ekvador hefur glímt við miklar efnahagsþrengingar á undanförnum árum og kórónaveirufaraldurinn hefur enn aukið á þær. Núverandi forseti, sósíalistinn Lenín Moreno, hefur gripið til margvíslegra aðhaldsaðgerða í ríkisrekstri, til að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir efnahagsaðstoð.

Arauz heitir því að víkja frá aðhaldsstefnu Morenos og taka aftur upp „alvöru sósíalisma." Loforð hans um að útdeila 1.000 bandaríkjadölum til milljón fjölskyldna í landinu strax á fyrsta mánuði forsetatíðar sinnar og innleiða sérstakan skatt á hina ríku eru liður í þeirri áætlun.

Á móti lofar Lasso, sem er eindreginn talsmaður hins frjálsa markaðar, að skapa ekki færri en milljón ný störf á fyrstu tólf mánuðum sínum í embætti, verði hann kjörinn.