Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Söfnun sparnaðar skapaði GameStop-bóluna

08.02.2021 - 13:55
Mynd: Jan Steen / Wiki commons
Hlutabréfaverð í GameStop-verslunarkeðjunni hefur nú lækkað, eftir að hafa bólgnað mikið og náð hámarki í lok janúar. Forsendur þessarar bólu er meira ráðstöfunarfé almennra fjárfesta í takt við minni einkaneyslu síðasta árið.

Efnahagsbólur eru ekki nýjar af nálinni. Einhverjir hafa borið GameStop-bóluna við túlípanaæðið í Hollandi á 17. öld.

Þegar Svarti dauði reið yfir Holland á fyrri hluta 17. aldar var ekki búið að skilgreina sóttvarnir eins vel og í dag, en farsóttin olli því samt sem áður að öll verslun nær stöðvaðist.

Iðjulausir kaupmenn söfnuðust þá saman á knæpum og versluðu með túlípana sér til skemmtunar. Verðið á þessari nýlegu tískuvöru á gullöld hollenska heimsveldisins hækkaði hratt í þessum leik.

Á einhverjum tímapunkti segir sagan að einn túlípanalaukur fengist í skiptum fyrir:

 • 4 kíló af hveiti,
 • 8 kíló af rúgmjöli,
 • 4 stóra uxa,
 • 7 feit svín,
 • 12 feitar kindur,
 • 2 ámur af víni,
 • 4 tunnur af bjór,
 • þúsund pund af osti,
 • heilt rúm,
 • full klæði
 • og silfraðan bikar.

Þetta er í seinni tíma sagnfræði talið vera fyrsta nútíma efnahagsbólan.

En hvað ætli hafi gerst ef kaupmennirnir hefðu haft internetið? Sumir hafa bent á líkindi milli túlípanaæðisins í Hollandi fyrir 400 árum og GameStop-æðisins í síðustu viku.

Hlutabréfaverðið lægra núna

Hlutabréfaverð í GameStop-verslunarkeðjunni hefur nú lækkað, eftir að hafa bólgnað mikið og náð hámarki í síðustu viku. Hópur almennra fjárfesta tók sig saman á samfélagsmiðlum og keypti í stórum stíl bréf í tölvuleikjaverslun sem vogunarsjóðir höfðu veðjað á að lækkuðu.

Reddit-notendurnir sem keyptu fyrst í GameStop hafa margir hverjir grætt á tá og fingri, en þeir sem voru seinir til og ákváðu að halda í bréfin í von um að verðið myndi hækka enn meira hafa tapað mikið, enda erfitt að sjá að hlutabréfaverðið hækki á ný.

Undanfarna mánuði hafa vogunarsjóðir tekið svokallaða skortstöðu gegn tölvuleikjaversluninni GameStop sem á í rekstrarerfiðleikum. Það þýðir að þeir fá lánuð hlutabréf, selja þau í trausti þess að þau lækki, kaupa þau þá aftur á lægra verði og hagnast þannig á lækkuninni.

Kom skortsölunum á óvart

Það voru svo notendur á spjallborðinu WallStreetBets á Reddit – aðallega eru þar áhugamenn um verðbréfaviðskipti – sem ákváðu að skera upp herör gegn þessu og keyptu bréf í GameStop í stórum stíl. Það kom svo skortsölunum á óvart þegar verðið hækkaði skyndilega. Þeir hlupu til en þurftu að kaupa bréfin á hærra verði en þau voru seld. Sumir sjóðir hafa tapað milljörðum dollara.

En það voru netverjarnir á Reddit sem græddu.

Einkaneysla í lágmarki og sparnaður safnast upp

Heimsfaraldurinn og sóttvarnaaðgerðir hafa gert það að verkum að einkaneysla hefur minnkað mjög mikið. Sparnaður millistéttarfólks hefur þess vegna safnast upp, og það er ein ástæða þess að svo mörgum litlum fjárfestum tókst að knésetja vogunarsjóðina á Wall Street. Hér á Íslandi hefur sparnaður fólks einnig safnast upp og er í sögulegu hámarki.

„Á heildina litið það safnast upp verulegur sparnaður og meira en að hefur áður sést. Það fer yfir 20% af ráðstöfunartekjum. Sögulegt meðaltal er í kringum 11%,“ segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, um einkaneyslu og sparnaðarsöfnun almennings.

„Þegar að kemur fram á þriðja ársfjórðung í fyrra þegar að opnast aftur tækifæri fyrir heimilin að eyða pening að þá ganga heimilin mjög hratt á þessa sparnaðarhlutdeild. En þó ekki það hratt að það er ennþá hátt í sögulegu samhengi,“ segir Þórarinn enn fremur.

Það má segja að fræjum GameStop-bólunnar hafi verið sáð fyrir ári síðan, þegar farsóttin barst til Bandaríkjanna og Evrópu og öll einkaneysla tók stakkaskiptum. Á svipaðan hátt og fyrir 400 árum þegar kaupmennirnir voru iðjulausir, var ofboðslega stór hópur fólks sendur heim til að vinna og gat svo ekki gert neitt í frítíma sínum, nema hanga heima og finna sér eitthvað til dundurs.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV