Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nýjar og aðeins rýmri sóttvarnareglur í gildi

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þau öldurhús landsins sem enn eru í rekstri verða opnuð fyrir takmörkuðum fjölda gesta í dag, í fyrsta skipti síðan í byrjun október. Eigendur líkamsræktarstöðva mega líka hleypa viðskiptavinum sínum í tækjasal og búningsklefa í fyrsta skipti í langan tíma og spilakassasalir fá einnig að opna dyr sínar fyrir spilaþyrstum sálum. Þetta eru dæmi um þær tilslakanir á sóttvarnareglum, sem tóku gildi á miðnætti.

Meginreglan er áfram sú að mest megi tuttugu koma saman og að tryggja skuli að unnt sé að halda tveggja metra fjarlægð milli ótengdra aðila. Þá gildir sama regla á öldurhúsum og veitingastöðum: Gestum skal þjónað til borðs, ekki má hleypa inn nýjum gestum eftir klukkan 21 og stöðunum skal lokað klukkan 22.

Reglur um grímunotkun haldast óbreyttar. Fleiri mega nú sækja leiksýningar, tónleika, trúarathafnir, söfn og verslanir en áður, eða 150 í stað 100, ef húsrúm leyfir. Þessar rýmkuðu sóttvarnareglur gilda til 3. mars.  

Undantekningar frá 20 manna hámarkinu

Eft­ir­tald­ar und­an­tekn­ing­ar eru frá 20 manna fjölda­tak­mörk­un­um en áfram gilda þó ákvæði um tveggja metra ná­lægðar­tak­mörk og grímu­skylda. Fjölda­tak­mörk­in eiga ekki við um börn fædd 2005 eða síðar þar sem þau eru und­anþegin ákvæðum um fjölda­tak­mörk, ná­lægðarmörk og grímu­skyldu.

  • Trú- og lífs­skoðun­ar­fé­lög: Við all­ar at­hafn­ir mega vera 150 full­orðnir ein­stak­ling­ar. 
  • Versl­an­ir: Heim­ilt verður að taka við 150 viðskipta­vin­um að há­marki í hverju rými sem upp­fyll­ir skil­yrði um fjölda fer­metra. 
  • Söfn: Heim­ilt er að taka á móti 150 gest­um að há­marki í hverju rými sem upp­fyll­ir skil­yrði um fjölda fer­metra.
  • Sviðslist­ir: Heim­ilt er að taka á móti 150 gest­um í sæti.
  • Heilsu- og lík­ams­rækt­ar­stöðvar mega opna bún­ingsaðstöðu að nýju og æf­ing­ar í tækja­sal verða heim­ilaðar að því gefnu að ekki séu fleiri en 20 manns í hverju rými og skulu þeir skrá þátt­töku sína fyr­ir fram. Leyfi­leg­ur há­marks­fjöldi gesta nem­ur helm­ingi af þeim fjölda sem kveðið er á um í starfs­leyfi. All­ur búnaður skal sótt­hreinsaður eft­ir notk­un og tryggja skal að ein­stak­ling­ar fari ekki á milli rýma. 
  • Hug­ar­leik­ir: Regl­ur sem gilt hafa um íþróttaæf­ing­ar og keppn­ir munu nú gilda á sama hátt um t.d. skák, bridds og bingó og sam­bæri­lega hug­ar­leiki.

Gildandi reglur um fjöldatakmarkanir, grímuskyldu og aðrar sóttvarnir má kynna sér betur á vefnum covid.is