Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Icelandair tapaði 51 milljarði á síðasta ári

08.02.2021 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Icelandair Group tapaði fimmtíu og einum milljarði króna á síðasta ári samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri sem var birt í dag. Farþegafjöldi dróst saman um 83 prósent á milli ára og sætaframboð um 81 prósent.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair í tilkynningu til Kauphallarinnar að þróun faraldursins og dreifing bóluefna á næstu mánuðum muni skipta sköpum varðandi framhaldið. Félagið gerir ráð fyrir því að flug fari að aukast á vormánuðum og að þá verði Boeing 737 Max vélarnar teknar aftur í notkun.

„Við stöndum enn frammi fyrir verulegri óvissu. Þróun faraldursins, dreifing bóluefna og hvernig reglur á landamærum þróast mun skipta sköpum varðandi framhaldið. Við erum hins vegar hóflega bjartsýn að geta aukið flug frá og með öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það er ánægjulegt að kyrrsetningu MAX vélanna hefur nú verið aflétt eftir gríðarlega umfangsmikið alþjóðlegt ferli og hafa fjölmörg flugfélög nú þegar tekið vélarnar í notkun. Við gerum ráð fyrir að vélarnar verði komnar í rekstur hjá okkur á vormánuðum og er undirbúningur þegar hafinn,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair í tilkynningu til Kauphallarinnar 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV