Fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman

08.02.2021 - 17:00
Mynd: ASÍ / ASÍ
Um fjórðungur launafólks á erfitt eða frekar erfitt með að að ná endum saman. Þetta kemur fram í nýrri vinnumarkaðskönnun sem kynnt verður á morgun. Þar kemur líka fram að um fjórðungur kvenna á vinnumarkaði býr við slæma andlega heilsu. Þetta hlutfall meðal ungs fólks er nærri 42%.

Ný rannsóknastofnun

Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðsins, sem ASÍ og BSRB komu á laggirnar hóf starfsemi vorið 2020. Megintilgangur Vörðu er að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, segir að nú sé komið að því að kynna fyrstu stóru afurð stofnunarinnar. Á morgun verður kynnt viðamikil könnun sem náði til félagsmanna bæði BSRB og Alþýðusambandsins. Hún segir að markmiðið hafi verið að varpa ljósi á alvarlega stöðu á vinnumarkaðinum í faraldrinum.

„Það voru áhyggjur af því að sérstaklega meðal atvinnulausra væru aðstæður öðruvísi heldur en við sáum eftir efnahagshrunið 2008 þar sem fólk gat sótt líkamsrækt, gat farið á námskeið og nýtt sé alls konar úrræði t.d. á vegum Vinnumálastofnunar. Núna eru ríkar samkomutakmarkanir og við höfum áhyggjur af því að heilsa fólks sé mun verri núna vegna þess að aðstæður er allt öðruvísi,“ segir Kristín Heba. Við þetta bætist svo gríðarlegt atvinnuleysi.

Í könnuninni var kastljósinu beint að stöðu launafólks, stöðu þeirra sem eru atvinnulausir, stöðu innflytjenda og reynt að varpa ljósi á stöðu ungs fólks í faraldrinum. Kristín Heba segir að útgangspunkturinn sé áhrif atvinnuleysis.

„Við erum að skoða þá hópa sem verst verða úti í atvinnuleysinu. Það eru samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar innflytjendur og ungt fólk.“

Gefur dökka mynd

Ein af niðurstöðunum er, þegar litið er á stöðu launafólks eða þeirra sem eru í vinnu, að um fjórðungur fólks á erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman. Kemur þessi niðurstaða á óvart? Já, segir Kristín Heba og bendir á að staða kvenna sé verri en karla.

„Við verðum að segja að þetta gefur dökka mynd af ástandinu,“ segir Kristín Heba. Ýmsir þættir séu mældir í könnuninni. „Við erum að sjá alvarlega stöðu. Við sjáum t.d. að 13,8% hafa ekki efni á að fara í árlegt sumarfrí með fjölskyldunni og samkvæmt þessari könnum búa um 6% við efnislegan skort.“ 

Fjórðungur kvenna býr við slæma andlega heilsu.

„Við erum að sjá að talsvert stór hluti kvenna býr við slæmt heilsufar. Við erum að sjá að yfir 9% vinnandi kvenna eiga erfitt með að sofa alla nóttina. Þetta er auðvitað áhyggjuefni,“ segir Kristín Heba.

Þegar staða þeirra sem eru atvinnulausir er könnuð kemur fram að þeir eiga erfiðara með að ná endum saman. Þeir eru líklegir að hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu. Fleiri í þeirra hópi hafi þegið matargjafir eða fjárhagsaðstoð og líða efnislegan skort. Þetta eru kannski niðurstöður sem við var að búast?

„Við höfum áhyggjur af því að það er ekki svo langt síðan að faraldurinn skall á og samt sé staðan orðin svona slæm. Ef ástandið á vinnumarkaði fer ekki skána hefur maður áhyggjur af því hvernig þetta þróast.“

Athyglinni er beint að stöðu innflytjenda. Almennt atvinnuleysi meðal þeirra í desember var um 24%. Um 14% landsmanna eru innflytjendur eða erlendir ríkisborgarar. Fram kemur að fjárhagsstaðan er verri á öllum mælikvörðum miðað við innfædda. Þeir eiga erfiðara með að ná endum saman, líða frekar efnislegan skort og eru líklegri til að hafa þegið matargjafir og/eða fjárhagslega aðstoð.

Ungt fólk glímir við slæma andlega heilsu

Andleg heilsa ungs fólks virðist vera verri en þeirra eldri. Í könnuninni kemur fram að tæplega 42% þeirra sem yngri eru glíma við slæma andlega heilsu á sama tíma sem hlutfallið meðal þeirri eldri er rösklega 20 af hundraði. Fjárhagsstaðan er verri en meðal heildarhópsins. Kristín Heba segir að sumir fái aðstoð frá sínum nánustu.

„Þá hefur maður sérstaklega áhyggjur af því unga fólki sem hefur kannski ekki bakland og getur ekki fengið fjárhagslega aðstoð frá foreldrum sínum. Annað sem maður sér með unga fólkið er alvarlega slæm andleg heilsa. Hlutfallið er 41,6% meðal ungs fólks sem mælist með slæma andlega heilsu,“ segir Kristín Heba.

Nánar er rætt við Kristínu Hebu í Speglinum.