Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Breskir tónlistarmenn kvarta undan Brexit

08.02.2021 - 20:04
Mynd: Rás 2 / Rás 2
Tónlistarfólk í Bretlandi segir stöðu sína hafa versnað til muna eftir Brexit. Nú sé bæði flóknara og dýrara að fá leyfi til tónleikahalds í öðrum Evrópulöndum. Bresk stjórnvöld segja vilja hafa staðið til að semja betur en það hafi strandað á Evrópusambandinu.

Tónlistarfólk er meðal þeirra sem hefur þurft að annaðhvort sitja heima eða finna upp nýjar leiðir til að miðla vinnu sinni í kórónuveirufaraldrinum. Fáir tónleikar hafa verið haldnir í heiminum síðastliðið ár og tónlistarhátíðum flestum frestað. 

Það er þó ekki aðeins kórónuveirufaraldurinn sem gerir tónlistarfólki erfitt fyrir. Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu um áramótin og breskt tónlistarfólk kvartar undan að lítið sem ekkert hafi verið hugsað til þeirra sem hafi lifibrauð sitt af því að ferðast á milli landa og halda tónleika. Það sé nú bæði flókið og kostnaðarsamt að sækja um leyfi til að halda tónleika í Evrópusambandsríkjum. 

Stjórnvöld segja að það hafi strandað á Evrópusambandinu

Colin Greenwood, bassaleikari Radiohead, skrifar grein í The Guardian í dag. Hann segir Evróputúra sveitarinnar á sínum tíma hafa verið jafn mikilvæga og tónleikar í Hamborg voru Bítlunum. 

Og fleiri leggja orð í belg.  Elton John segir þetta koma verst niður á ungu tónlistarfólki, aukinn kostnaður við tónleikaferðalög skerði möguleika þeirra við að koma tónlist sinni á framfæri, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Í sama streng tók Ronan Keating í viðtali hjá breska ríkisútvarpinu á dögunum. 

Bresk stjórnvöld hafa til þessa svarað því til þau hafi reynt að tryggja betri stöðu fyrir tónlistarfólkið í samningaviðræðunum, en það hafi strandað á Evrópusambandinu. Málið var á dagskrá breska þingsins í dag.