Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

100 ára fyrrum fangavörður nasista ákærður

08.02.2021 - 17:07
epa07505912 A visitor enters the entrance next to the reading 'Arbeit macht frei' (work sets you free) at the former concentration camp Sachsenhausen in Oranienburg near Berlin, Germany, 14 April 2019. Today Sachsenhausen commemorates the 74th day of its liberation from the Nazis.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Aldargamall fyrrum fangavörður í Sachsenhausen-útrýmingarbúðum nasista í Oranienburg í Þýskalandi var í dag ákærður fyrir að hafa „viljandi og vitandi“ átt aðild að 3.518 morðum á árunum 1942-1945. Maðurinn er metinn nógu heilsuhraustur til að vera við réttarhöldin, þrátt fyrir aldur. Þýski miðillinn NDR greinir frá.

Fyrir nokkrum dögum var 95 ára fyrrum ritari í Stutthof-fangabúðunum í Gdansk í Póllandi, sem áður hét Danzig, ákærður fyrir aðild að 10.000 aftökum, en það er í fyrsta skipti í seinni tíð sem kona er ákærð fyrir störf í fangabúðum nasista. 65 þúsund manns voru teknir af lífi í Stutthof-fangabúðunum í seinni heimsstyrjöldinni. 

Þýsk stjórnvöld hafa frá árinu 2011 leitað uppi fyrrverandi starfsmenn fangabúða og meðal þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir aðild að fjöldaaftökum eru Oskar Groening, sem starfaði sem endurskoðandi í Auschwitz-búðunum og Reinhold Hanning, fyrrum fangavörður í sömu búðum. Báðir voru dæmdir 94 ára en létust áður en þeir voru fluttir í fangelsi.

Í júlí var Bruno Dey, fyrrverandi fangavörður í Stutthof-búðunum, dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir aðkomu að 5.232 morðum. Saksóknari hafði farið fram á að Dey yrði dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar en dómurinn var mildaður á grundvelli þess hve ungur hann var þegar helförin átti sér stað. Dey viðurkenndi að hann hefði vitað af aftökum í gasklefum en játaði sig ekki sekan.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV