Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvö hundruð saknað eftir flóð á Indlandi

07.02.2021 - 15:58
Mynd: EPA-EFE / STATE DISASTER RESPONSE FORCE
Tvö hundruð manns, hið minnsta, er saknað eftir flóð í Himalaya-fjöllum á Indlandi í morgun. Flóðið sópaði burt tveimur virkjunum, vegum og brúm.

Talið er að flóðið hafi orðið eftir að stórt stykki brotnaði úr jökli og féll í á. Níu hafa fundist látnir og er nú leitað í kapp við tímann að þeim um það bil tvö hundruð sem saknað er. Flestir þeirra voru á svæðinu að vinna að gerð stíflu og vatnsaflsvirkjunar. 

Sautján manns voru fastir inni í göngum og hefur tólf þeirra verið bjargað. Þorp í næsta nágrenni voru rýmd en nú er mesta hættan talin vera liðin hjá. AFP fréttastofan hefur eftir stofnanda náttúruverndarsamtakanna Swechha að hamfarirnar séu áminning um afleiðingar loftslagsbreytinga og hvernig tilviljanakennd uppbygging vega, lestarteina og virkjana hafi áhrif á viðkvæm vistkerfi. 

Í Himalaya-fjöllum hafa sums staðar myndast stór jökullón og lengi hefur verið óttast að stíflur bresti og valdi hamförum eins og þessum. Ekki er fyllilega ljóst hvað kom flóðinu af stað í morgun en talið að stórt stykki hafi losnað frá jökli og fallið ofan í á með þeim afleiðingum að mikið flóð fór af stað og eyðilagði stíflu neðar í dalnum. Flóð eru nokkuð algeng í Himalaya-fjöllunum.  Á sjötta þúsund létu lífið í miklum flóðum á Norður-Indlandi fyrir sjö árum. 

epaselect epa08993669 A general view of a rescue operation near the Dhauliganga hydro power project after a portion of Nanda Devi glacier broke off, at Reni village in Chamoli district, Uttrakhand, India, 07 February 2021. Over 100 people are feared dead after part of the Nanda Devi glacier broke off causing massive floods in the Tapovan area of Uttarakhand's Chamoli district.  EPA-EFE/ARVIND MOUDGIL -- BEST QUALITY AVAILABLE --
 Mynd: EPA-EFE - EPA
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir