Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Snjókoma veldur usla í Hollandi og Þýskalandi

07.02.2021 - 19:49
epa08994095 Cars drive on the snow covered motorway A2 in Kamen, Germany, 07 February 2021. A heavy winter storm with cold easterly winds brings ice and fresh fallen snow with snow drifts. Many railway services in the West are disrupted.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mikil snjókoma hefur valdið vandræðum í Hollandi og Þýskalandi. Ökumenn hafa víða lent í ógöngum og hefur þurft að loka hraðbrautum vegna slæmra akstursskilyrða. 

Snjókoma, hvassviðri og kuldi hafa sett samgöngur úr skorðum víða í Hollandi. Verst var staðan í Eindhoven þar sem flug- og lestarsamgöngur fóru verulega úr skorðum þó snjórinn væri kannski ekki mikill á íslenskan mælikvarða. Saltburður á götum skilaði litlu þar sem umferð er lítil vegna samgöngutakmarkana í heimsfaraldri.

Hollenskir sjónvarpsmenn voru meðal þeirra sem festu bíl sinn. Starfsmaður í vegagerðinni sagði að í minni götum kæmust menn ekki einu sinni út úr bílastæðum sínum þar sem snjórinn væri ekki ruddur, alveg sama hversu mikið þeir sneru stýrinu.

Víða í norðvesturhluta Þýskalands fóru lestarsamgöngur einnig úr skorðum vegna snjókomunnar. Margir áttu erfitt með að ráða við akstursskilyrðin og fjöldi ökumanna lenti í vandræðum. Loka þurfti mörgum vegum þar sem starfsmenn komust ekki yfir að ryðja þá.

 

„Þetta er sannarlega skelfilegt,“ sagði Killian Nordback, starfsmaður neyðarþjónustu fyrir ökumenn. „Ég hef aldrei séð svona slæmt ástand á götunum. Það er snjór um allt og fyrir neðan hann er svo glær ís.“

 

En veðrabrigðin geta tekið á sig fallega mynd líka. Í gær varð himininn rauðleitur í mörgum evrópskum borgum þegar hvass vindur feykti eyðimerkursandi frá Sahara yfir Evrópu. Snjórinn tók vel við sandinum.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV