Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Líkur á þjóðstjórn á Ítalíu fara vaxandi

07.02.2021 - 02:30
epa08986907 Italian designated-prime minister Mario Draghi (C) leaves his home in Rome, Italy, 04 February 2021. Draghi accepted on 03 February a mandate from the Italian president to form a national unity government after the previous coalition collapsed.  EPA-EFE/ANGELO CARCONI
Mario Draghi (fyrir miðju) hefur nú fundað með fulltrúum allra flokka á Ítalíuþingi og vinnur nú að því að leggja drög að stjórnarsáttmála mögulegrar þjóðstjórnar. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Líkurnar á því að Mario Draghi, fyrrverandi forstjóra Seðlabanka Evrópu, takist að mynda þjóðstjórn á Ítalíu jukust til muna í dag þegar tveir af stærstu flokkum landsins lýstu stuðningi við þau áform, með skilyrðum þó.

Frekar þjóðstjórn en kosningar í miðjum faraldri

Ríkisstjórn Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Demókrata féll í vikunni sem leið. Forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, sagðist þá ætla að fá Draghi til að leiða þjóðstjórn allra helstu stjórnmálahreyfinga, til að takast á við neyðarástandið í landinu, enda væri það mun vænlegri kostur en að efna til kosninga í miðjum heimsfaraldri og efnahagskreppu.

Fimmstjörnuhreyfingin þver á móti

Fimmstjörnuhreyfingin, popúlískur andkerfisflokkur sem leitt hefur síðustu ríkisstjórnir, er stærstur flokka á Ítalíuþingi. Leiðtogi hans, Vito Crimi, sagði flokk sinn aldrei munu styðja þjóðstjórn undir forsæti hagfræðingsins Draghis, sem einnig hefur gegnt embætti seðlabankastjóra Ítalíu.

Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins, sem er popúlískur þjóðernisflokkur, var einnig tortrygginn á þau áform. Aðrir flokkar voru jákvæðari.

Jákvæðari eftir viðræður við Draghi

Draghi ræddi við leiðtoga allra flokka í dag, laugardag, þar sem hann fór yfir hugmyndir sínar. Eftir fundarhöld dagsins sagðist Crimi ekki lengur útiloka þátttöku í þjóðstjórn Draghis. Hvort af henni yrði ylti þó alfarið á þeim stefnumálum sem sett yrðu á oddinn. Sagðist hann hafa lagt fram langan lista af forgangsatriðum á sviði umhverfis- og velferðarmála.

Salvini var enn jákvæðari eftir sinn fund með Draghi og sagði Norðurbandalagið tilbúið að ganga til liðs við ríkisstjórn „sem fer til Brussel og ber höfuðið hátt í nafni þjóðarhagsmuna.“ Draghi boðar frekari fundarhöld í vikunni, þar sem hann hyggst leggja drög að stjórnarsáttmála og skiptingu ráðuneyta.