Halla og Eyvindur ákærð fyrir að farga barni sínu

Mynd: RÚV / RÚV

Halla og Eyvindur ákærð fyrir að farga barni sínu

07.02.2021 - 09:33

Höfundar

Barnslík fannst í hreysi þeirra Fjalla-Eyvinds og Höllu þegar þau hjónaleysin voru loks handsömuð eftir margra ára útlegð á síðari hluta átjándu aldar. Þar fundust líka ýmsir munir sem hafa varðveist, til dæmis nokkuð heillegar körfur sem Eyvindur er sagður hafa ofið í útlegðinni, og þau drukku vatn úr.

Í Hafnarfirði leynist afar fagurlega ofin karfa sem er í einkaeigu. Talið er að einn frægasti útilegumaðurhafi ofið hana, hann Fjalla-Eyvindur. Sigurður og Viktoría fara á stúfana í þættinum fyrir Alla muni í kvöld, rekja sögu körfunnar og skoða um leið líf útilegufólksins sem hefur orðið mörgum innblástur. Flestir Íslendingar þekkja tregafulla sögu þeirra í grófum dráttum og um ævi þeirra og örlög hafa verið skrifaðar bækur, samin leikrit og gerðar kvikmyndir. Þau eru til dæmis aðalpersónur í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, Fjalla-Eyvindur: Leikrit í fjórum þáttum, sem víða hefur verið sett upp og sænski leikstjórinn Victor Sjöström gerði kvikmynd eftir 1918.

Ákærð fyrir flökkulíf, þjófnað og að hafa fargað barni

Viktoría kíkti á Þjóðskjalasafn Íslands og ræddi þar við Benedikt Eyþórsson fagstjóra upplýsingaþjónustu. Hann segir töluvert af skjölum sem tengjast parinu leynast á safninu, flest þeirra frá árunum 1762-64. Meðal annars lýsingar á því þegar loksins var haft uppi á þeim Eyvindi og Höllu og þau handtekin og réttað yfir þeim. Eitt af því sem fannst í hreysinu sem þau höfðu komið sér fyrir í var barnslík. „Það var vitað að hún væri ólétt veturinn 1762-63 og þau voru ákærð fyrir að hafa fargað barni sínu og ætlað að fela það. Síðan fyrir þjófnað og flökkulíferni.“

Dæmd til ævilangrar refsivistar

Í dómsskjölum um málið sem fundust fyrir fáum árum kemur fram að Halla hafi fætt barn í útilegubæli í Drangavíkurfjalli á Ströndum í mars árið 1763, skömmu áður en þau voru handtekin fyrir sauðaþjófnað og dæmd til ævilangrar refsivistar. Þau eru þráspurð um barnið og vitnisburður þeirra kemur fram í skjölunum sem Björk Ingimundardóttir fann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í dómsskjölunum kemur fram að Halla hafi fætt barnið í mars árið 1763

Skírður Bjarni og lést tveggja daga gamall

Þar segir að barnið hafi fæðst á föstudegi um miðjan mars en verið mjög veikburða. Eyvindur hafi aðstoðað við fæðinguna og skorið á naflastrenginn. Hann hafi svo gefið barninu nafnið Bjarni og skírt það upp úr köldu vatni, en síðan laugað drenginn með volgu vatni og lagt hann í fang móður sinnar. Drengurinn hafi dáið tveimur dögum síðar. Þau hafi ætlað að fá leyfi bóndans á Dröngum til að jarða hann þar, en ekki komist í það.

Viktoría Hermannsdóttir og Sigurður Helgi Pálmason fjalla um Fjalla-Eyvind og Höllu og körfuna í þættinum Fyrir alla muni sem hefst kl. 20.25.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Leitað að silfri Egils eftir vísbendingu úr draumi

Sjónvarp

Árituðu Íslendingarnir í Petsamóförinni þennan jakka?

Menningarefni

Er þetta stýrið úr Pourquoi-Pas?