Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Botnplata þykk og þung svo húsið lyftist ekki upp

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Alls fara um 380 rúmmetrar af steypu og 46 tonn af járni í fyrsta áfanga botnplötu nýbyggingar Alþingis. Efnt var til samkeppni um hönnun hússins og það voru Arkitektar Studio Granda sem áttu verðlaunatillöguna sem kynnt var 17. desember 2016.

Þykkt botnplötu hússins er að meðaltali 70 sentímetrar að því er fram kemur á vef Alþingis. Húsið verður „sett á flot“ eftir að hætt verður að dæla jarðvatni úr grunninum sem skýrir þykkt plötunnar.

Ella myndi húsið lyftast eins og skip á floti þegar vatni verður hleypt að því, þannig myndar þungi botnplötunnar eins konar akkeri sem heldur húsinu á sínum stað.

Þunginn sem þarf til þess er svo mikill að ákveðið hefur verið að dæla ekki vatni úr grunninum fyrr en uppsteypu allra fimm hæða hússins lýkur. Í næstu viku verður byrjað á næsta áfanga botnplötunnar og tekið til við að reisa veggi ofan á fyrsta áfangann.

Steypuvinna hófst fyrir alvöru í gær, enda veður hagstætt til slíkra starfa. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri tóku fyrstu skóflustungu að grunni hússins í febrúar á síðasta ári. Við það tilefni sagði Steingrímur:

„Hér fer nú af stað mesta framkvæmd á vegum Alþingis í 140 ár. Þ.e. frá því að Alþingishúsið sjálft reis á árunum 1880–1881. Sú framkvæmd var reyndar risavaxin á þáverandi mælikvarða landsins.

Fjárlög voru þá samþykkt til tveggja ára í senn og í frumvarpi því sem varð að lögum 26. ágúst 1879 fyrir árin 1880 og 1881 hljóðuðu tekjur Íslands (eins og það var orðað) og gjöld upp á 777 þúsund, 825 krónur og 20 aura. Á hvoru ári um sig voru umsvifin sem sagt tæpar 390 þúsund krónur, en þinghúsið kostaði 120 þúsund.“

Kostnaðaráætlun við nýbygginguna er um 4,5 milljarðar króna auk verðbóta en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir 772 milljarða heildartekjum ríkissjóðs.

Húsið verður ríflega 6.000 fermetrar að stærð ásamt bílakjallara og hýsir skrifstofur þingmanna, fundarherbergi nefnda, aðstöðu þingflokka og ráðstefnusali.

Fyrsta steypan rann í grunn hússins í desember en búist er við að alls fari 4.485 rúmmetrar af steypu í bygginguna, sem er álíka mikið og þarft til að byggja 40 einbýlishús.

Í húsinu verða 142 gluggar og 187 innihurðir en hún mun tengjast öðrum byggingum Alþingis. Áætlað er að byggingin verði tilbúin árið 2023.