Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bil milli kynja í skólakerfinu eykst

07.02.2021 - 14:04
Mynd: RÚV / RÚV
Þegar sonur Tryggva Hjaltasonar var að hefja grunnskólagöngu sína, ræddi Tryggvi við kennara og komst að því að þeir voru margir sammála um staða drengja innan skólanna væri ekki nógu góð. Tryggvi starfar hjá CCP, er formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins og tekur þátt í átaki í Eyjum vegna menntunar drengja. Rætt var við hann í Silfrinu í dag en hann hefur bakgrunn við greiningar gagna og hefur rýnt í gögn um stöðu kynja í skólakerfinu.

„Myndin sem kemur upp er heldur dapurleg,“ sagði Tryggvi í Silfrinu. Hann sýndi niðurstöður rannsókna og kannana, sem hann hefur rýnt í og sýna, meðal annars, að 34,4 prósent drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Hann benti á að hlutfallið væri tvöfalt hærra en hjá stúlkum, staðan væri verri hjá drengjum á Íslandi en í öðrum ríkjum og sömuleiðis að hún fari versnandi. Meðal nemenda sem eru í lægri þrepum lesskilnings eru drengir einnig í meirihluta. Þá sagði Tryggvi einnig frá könnun á vegum Menntamálastofnunar sem sýnir að stúlkum sé hrósað oftar en drengjum í skólanum. 

 

Mynd með færslu
Tryggvi Hjaltason er meðal annars formaður Hugverkaráðs SI. Mynd: RÚV

Hvað framhaldsskóla varðar, þá hættir 31 prósent drengja námi áður en að útskrift kemur. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri, mættu í Silfrið til að ræða þessi mál. 

Telur að málið væri litið öðrum augum ef hallaði á stúlkur

Helga ætlar að leggja fram þingsályktun um þetta ójafnvægi. Hún telur að málið yrði litið alvarlegri augum ef það hallaði á stúlkur með þessum hætti. „Við höfum verið í fararbroddi þegar kemur að réttindum kvenna í áratugi og okkur hefur gengið mjög vel, bæði að vekja athygli út fyrir landsteinana en líka að jafna bilið milli kynjanna, þannig að konur komist greiðar inn í skólakerfið, til dæmis. Það hallaði mjög á konur þar og á vinnumarkaði og svo framvegis,“ sagði Helga Vala. 

Mynd með færslu
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.  Mynd: RÚV

„Við getum ekki horft fram hjá því að ef staðan væri þannig að 35 prósent háskólanema og 35 prósent framhaldsskólanema væru konur og 65 prósent karlar þá værum við með viðvarandi aðgerðir í gangi,“ segir Helga Vala, sem telur brýnt að sofna ekki á verðinum, það geti leitt til mjög alvarlegs félagslegs ástands. 

Telur menntakerfið of einhæft

Ragnar Þór kvaðst fagna því að umræðan væri út frá staðreyndum og gögnum en ekki skoðunum og pólitískum áherslum. „Vandinn liggur í því að við erum með hryggskekkju í okkar menntakerfi. Það er allt of einhæft, það er hryggskekkja í átt til hefðbundins bóknáms.“

Mynd með færslu
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands. Mynd: RÚV

Menntakerfið hafi ekki náð að verða grunnþáttur í fjölmörgum sviðum samfélagsins, að mati formannsins. „Leið drengja til áhrifa og þess að taka sér stöðu í íslensku samfélagi hefur í allt of litlum mæli verið í gegnum menntun. Það hefur verið í gegnum aðra þætti.“ Það dugi ekki lengur til, samfélagið þurfi á því að halda að allir fái góða menntun, ekki bara í hefðbundnu bóknámi, heldur í verknámi og listnámi líka.

Segir lestrarkunnáttu brýnni nú en áður

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri, segir mjög mikilvægt að draga ekki úr lestrarkennslu innan skólanna. Næstu 30 ár skipti sköpum fyrir nemendur að kunna að lesa, skrifa og tjá sig. „Þannig að næstu störf kalla miklu meira á það heldur en hefur verið gert.“ Gamli tíminn hafi, að einhverju leyti, leyft fólki að komast upp með það kunna ekki að lesa. „En nú sem aldrei fyrr þurfa allir að geta greint mjög margar tegundir gagna til að geta tekið upplýstar ákvarðanir sem að tölvur gera ekki, þannig að ég er á þeirri skoðun að það megi ekki draga úr.“

Mynd með færslu
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri. Mynd: RÚV