Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bankarnir áfram um að tryggja endurskipulagningu

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir sér hafa sýnst að bankar leggi áherslu á að vinna með ferðaþjónustufyrirtækjum við endurskipulagningu fjármála þeirra. Bankarnir séu opnari á frystingar og frestanir en yfirtökur nú en var eftir Hrunið.

Jóhannes Þór segir að núna sé afmarkaðri hluti efnahagslífsins í miklum vanda en var þá. Hann telur ekki líkur á að þau ferðaþjónustufyrirtæki sem bankar hafi yfirtekið séu mörg.

Hann hafi þó orðið var við einstök tilfelli, það viðamesta er fjárhagsleg endurskipulagning KEA-hótela með aðkomu Landsbankans. Jóhannes álítur þó að meira gæti orðið um yfirtökur ef kórónuveirufaraldurinn dregst á langinn. Því fylgi áhætta sem rétt sé að Samkeppniseftirlitið fylgist með.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í fréttum RÚV á dögunum að óljóst væri hve umfangsmikið eignarhald bankanna í ferðaþjónustufyrirtækjum væri.

Páll sagði fyrirtæki í greininni áhyggjufull yfir þróuninni. Eftirlitinu hafi borist ábendingar um að aukið eignarhald viðskiptabankanna í ferðaþjónustunni gæti hamlað samkeppni.

Mikilvægt sé að fyrirtækin séu rekin með sjálfstæðum hætti án íhlutunar bankanna. „Það eru uppi áhyggjur af því að það geti endurtekið sig vandamál sem sköpuðust í hruninu,“ sagði Páll. Jóhannes Þór segir slík dæmi alþekkt úr Hruninu, miklum samdrætti geti fylgt vandamál.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist í samtali við fréttastofu líta þannig á að upplegg bankanna sé að veita fyrirtækjum þann frest sem þurfi meðan faraldurinn er álitinn tímabundið ástand.

Það sé hluti af viðspyrnuúrræðum vegna COVID-19. Mat Halldórs er að bankarnir vandi sig í samskiptum við fyrirtækin þótt alltaf megi finna dæmi um fyrirtæki sem ekki sé hægt að bjarga.

Það sé þá yfirleitt vandi sem nái aftur fyrir þann tíma sem faraldurinn skall. Halldór kveðst bjartsýnn á að ferðaþjónustan verði sterk á ný.