Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

236 brot á sóttvarnarlögum: „Auðvitað mjög mikið“

Mynd: Lögreglan á Höfuðborgarsvæ? / Facebook
236 brot á sóttvarnalögum hafa verið skráð í málaskrá lögreglu frá því að faraldurinn hófst. Yfirlögregluþjónn segir að þetta séu mjög mörg brot, sérstaklega í ljósi þess að flestir eigi að þekkja reglurnar. Þjóðin hafi þó heilt yfir staðið sig frábærlega gagnvart sóttvarnarlögum.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá Embætti ríkislögreglustjóra, um hversu mörg brot á sóttvarnarlögum hefðu verið skráð í málaskrá lögreglu, og hver afdrif þeirra mála væru.

Samkvæmt upplýsingum frá embættinu voru 236 mál skráð í málaskrá lögreglu á tímabilinu frá 1. mars í fyrra og fram til 31. janúar, eða á ellefu mánaða tímabili. Það gerir um það bil 21 brot á mánuði að meðaltali. Í svari Ríkislögreglustjóra segir að 309 aðilar séu skráðir í þessum málum, 258 einstaklingar og 51 fyrirtæki. Fleiri en einn getur verið skráður á eitt og sama brotið.

Verst þegar smit koma upp

„Þetta er auðvitað mjög mikið,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. „En við höfum líka fengið gríðarlegan fjölda af tilkynningum, það hafa yfir 3.000 tilkynningar borist. Flest málin eru leyst með leiðbeiningum og menn fá smá tilsögn í því hvernig á að gera hlutina betur en þetta er auðvitað talsvert mikill fjöldi miðað við að það þekkja eiginlega allir hvernig á að hegða sér í þessu.“

Í svari Ríkislögreglustjóra kemur fram að 17% brotanna séu komin í sektarmeðferð, 22% málanna séu komin í lokaferil, þar sem ekki var talin ástæða til að beita sektum, og 61% er enn til afgreiðslu eða í rannsókn.

„Verst þykir manni ef það kemur smit upp úr þessu. En það sem betur fer eru ekki mörg tilfelli þannig að við getum rakið einhverjar hópsýkingar upp úr sóttvarnarbrotum. En auðvitað eru örfá svoleiðis tilfelli,“ segir Víðir.

Svona heilt yfir, hvernig finnst þér þjóðin hafa staðið sig gagnvart sóttvarnarlögunum?

„Alveg frábærlega. Það er ótrúleg samstaða. Og ástæðan fyrir því að við erum stödd á þessum stað í dag, með þessi örfáu smit og nánast engin, er náttúrulega bara samstaða þjóðarinnar og ekkert annað.“