Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vestlendingar taka Sundabraut fagnandi

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi segir Sundabraut langþráða samgöngubót sem muni gera fólki auðveldara að setjast að í landshlutanum.

Sundabraut hefur verið baráttumál Vestlendinga um nokkurt skeið og eitt af aðaláherslum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í samgöngumálum síðustu ár. Páll Brynjarsson, framkvæmdastjóri samtakanna, fagnar skýrslunni sem kynnt var í vikunni og að nú virðist lending vera komin í málið. Með Sundabraut aukist umferðaröryggi og ferðalagið til Reykjavíkur styttist.

„Það er svo margt fyrir okkur sem mælir með þessu. Auðvitað er það þannig að Reykjavík er miðstöð þjónustu og miðstöð stjórnsýslu og það er nauðsynlegt að eiga gott aðgengi að borginni. En þetta auðvitað líka stækkar atvinnusvæðið. Þannig við sjáum fram á að þetta geti haft mikil áhrif á byggðarþróun á Vesturlandi að fá Sundabraut, sem styttir vegalengdir og styttir tíma.“

Nú þegar er mikil umferð af Vesturlandi til höfuðborgarsvæðisins, líklega hvað mest frá Akranesi og Borgarnesi þar sem töluverður fjöldi fólks býr þar en starfar eða stundar nám í Reykjavík. Páll kveðst ekki hafa áhyggjur af að þéttbýli á Vesturlandi muni umbreytast í að vera úthverfi höfuðborgarsvæðisins. Þau haldi sinni sérstöðu.

„Þetta hins vegar gefur okkur Vestlendingum töluvert mikil tækifæri varðandi það að nú verður auðveldara fyrir fólk að velja sér búsetu á Vesturlandi og ætla sér svo að sækja starf til höfuðborgarinnar. Því hér eru staðir sem bjóða upp á mjög góð búsetuskilyrði.“

Það eigi ekki einungis við Borgarnes og Akranes heldur Vesturland allt.

„Svo náttúrulega ef við hugsum lengra, þá hefur Sundabraut heilmikla þýðingu fyrir Vestfirðinga, Norðlendinga og jafnvel Austfirðinga því að þetta styttir vegalengdir á milli þessara landsvæða og höfuðborgarinnar. Þannig að þetta er að nýtast svo mörgum og svo auðvitað Reykvíkingum sjálfum. “