Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verðmunur á bensínlítra getur numið allt að 47 krónum

Eldsneytismælir sem sýnir tóman tank.
 Mynd: Helmut Gevert - RGBStock
Algengasta verð á bensínlítra hjá N1 er 236,90 krónur en lítrinn kostar 189,90 hjá Costco í Garðabæ. Verðmunurinn er því 47 krónur á hvern lítra. Innkoma Costco á markaðinn hefur haft mikil áhrif á verðmyndun og samkeppni á eldsneytismarkaðnum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) en verð á olíueldsneyti hefur hækkað nokkuð hér á landi frá áramótum. Að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB var verðsamanburðurinn gerður í gær föstudag.

Hann segir álagningu eðlilega á lággjaldastöðvum olíufélaganna. Kostnaður við hvern lítra hefur hækkað á heimsmarkaði undanfarnar vikur og krónan hefur sömuleiðis veikst gagnvart Bandaríkjadal.

Miðgengi samkvæmt upplýsingum á vef Landsbankans var um 127 krónur á Gamlársdag en tæpar 129 í gær.

Frá áramótum hefur verð hvers bensínlítra hækkað um tíu krónur hjá N1, um sex krónur hjá Costco og um 3,90 ÓB og Orkunni. Munur á hæsta og lægsta bensínverði hjá N1 er 40 krónur og 90 aurar og ríflega 41 króna hjá Orkunni.  

FÍB segir erfitt að réttlæta slíkan verðmun. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir í samtali við fréttastofu að fyrirtækið byggi á allt annarri viðskiptahugmynd en Costco.

„Ef allir kúnnar greiddu fasta fjárhæð í klúbbgjald myndi það hafa áhrif á verðið til lækkunar en það eru 70 þúsund einstaklingar og fyrirtæki með N1-kort,“ segir Eggert.

Hann kveðst ekki viss um að nokkur sé tilbúinn að greiða sérstaklega fyrir kortin. Þarna vísar hann til þess viðskiptvinir þurfa að greiða 4.800 króna árgjald til að geta verslað við Costco, fyrirtæki greiða 3.800 krónur á ári. 

„Ef N1 væri bara með einn útsölustað væri líka hægt að lækka verð, umsvif N1 eru öllu meiri en það, til að mynda eru útsölustaðir eldsneytis 110 talsins um allt land.“ Eggert segir sífellt leitað leiða til að lækka verð og hvernig hægt sé að gera hlutina ódýrar, fjárfestingar hafi minnkað og starfsfólki fækkað.

Hann kveðst sannfærður um að sjálfsafgreiðslustöðvum með lægra eldseytsiverði án afsláttar muni fjölga á næstu árum. Ári eftir innkomu Costco á markaðinn 2017 lækkaði Atlantsolía verð á einni bensínstöð í Hafnarfirði og síðar við Sprengisand í Reykjavík.

Eftir það tóku hin félögin upp verðsamkeppni við Atlantsolíu og Costco með lækkun verðs á tveimur eða fleiri bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Sú lækkun tók einnig að skila sér til Akureyrar á síðasta ári. Runólfur Ólafsson kveðst fagna allri samkeppni á eldsneytismarkaði.

„Það er kostur fyrir neytendur að geta sótt í ódýrari dropana og áhugavert að þurfti erlendan auðhring til að bjóða upp á svipað verð og í nágrannalöndum okkar,“ segir Runólfur Ólafsson sem telur að í framtíðinni verði akstur skattlagður í samræmi við akstursnotkun. 

„Þá myndum við vera að sjá einhverskonar skattaform sem tengist því sem við þekkjum þegar við erum að borga af heita vatninu og rafmagninu.  Þá áætlum við einhvern akstur, förum í álestur einu sinni á ári og borgum í samræmi við hann.“ 

Runólfur telur að sama gjaldform muni þá eiga við um brunahreyfilsbíla og rafbíla.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:30.