Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Slösuð kona sótt á Grímansfell

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir í Mosfellsbæ og Reykjavík ásamt sjúkraflutningamönnum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sóttu slasaða konu á Grímansfell í Mosfellsbæ á þriðja tímanum í dag.

Tilkynning barst frá göngufólki klukkan 13:34 um að konan hefði dottið og slasast á fæti ofarlega í hlíðum fellsins. Ekki var hægt að styðja hana niður og hún gat ekki gengið sjálf.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar upplýsingafulltrúa Landsbjargar er ekki vitað um ástand konunnar. Þó er ekki talið að meiðsli hennar séu alvarleg. Björgunin gekk vel.

Davíð Már segir að konan sé flutt niður fellið í börum með hjólabúnaði á sexhjóli og til þess þurfi nokkurn mannskap. Veður er gott á slysstað en hvasst og því heldur kalt. 

Davíð hvetur útivistarfólk til skilja alltaf eftir áætlun um leiðina sem það ætlar að fara og hvenær það sé væntanlegt til baka. Það á við hvort sem fólk er eitt á ferð eða í hópi. Slík forsjálni hefur iðulega bjargað fólki í útivist sem lendir í óhöppum eða slysum.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:01.

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV