Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lögreglumenn bólusettir til að hindra bóluefnasóun

06.02.2021 - 01:27
epa08954953 Syringes with vaccine against Covid-19 are prepared at the vaccination centre in Giessen, Germany, 21 January 2021.  EPA-EFE/OLIVER VOGLER / POOL
 Mynd: epa
Hundruð lögreglumanna í þýska sambandsríkinu Saxlandi hafa verið bólusettir síðustu vikur þótt þeir tilheyri ekki þeim forgangshópum sem verið er að bólusetja þar í landi. Þýska tímaritið Spiegel greinir frá þessu. Haft er eftir lögregluyfirvöldum í Dresden að nær 400 lögreglumenn þar í borg og næsta nágrenni hafi verið bólusettir frá 8. janúar, og í Leipzig er búið að bólusetja rúmlega 40 lögreglumenn.

Hér er þó enginn að svindla sér framfyrir í bólusetningarröðinni, heldur hefur Rauði krossinn, sem sér um bólusetningu á svæðinu, boðið lögreglunni að nýta skammta sem annars færu til spillis.

Bóluefnið þarf að geyma í miklu frosti og eftir að það hefur þiðnað er ekki hægt að frysta það aftur. Í lok dags eru iðulega nokkrir skammtar eftir á bólusetningastöðvum og því hefur Rauði krossinn boðið lögreglu að láta sitt fólk nýta þá, frekar en að láta þessa dýrmætu dropa fara forgörðum.