Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kýs frekar gott líf en aðeins meiri ávöxtun

Mynd: pixabay / pixabay

Kýs frekar gott líf en aðeins meiri ávöxtun

06.02.2021 - 10:52

Höfundar

„Ég ætla ekki að fara á eftirlaun fyrr en eftir um 25 ár og auðvitað skiptir máli að fá einhverja ávöxtun á peninginn en það skiptir mig miklu meira máli að það verði ennþá siðmenning á Íslandi þegar ég fer á eftirlaun,“ þetta segir Kristján Rúnar Kristjánsson. Bjarni Herrera Þórisson, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Circular solutions, segir að hefðbundnar loftslagsaðgerðir venjulegs fólks blikni í samanburði við í hvaða lífeyrissjóð það greiðir.

Rannsókn sem vakti mikla athygli

Kristján er þátttakandi í Loftslagsdæminu, hann og Stella Soffía, konan hans, búa í Hlíðunum í Reykjavík ásamt fjórum börnum. Kristján vinnur í áhættustýringu hjá Íslandsbanka og hann ræddi við Bjarna Herrera, sérfræðing í sjálfbærum fjármálum, um hvernig almenningur gæti haft áhrif á allt hagkerfið. „Hvort sem það væri þá í gegnum breyttar neysluvenjur eða með fjárfestingum, með sparnaði, með því að setja þrýsting á lífeyrissjóðina, eitthvað svoleiðis.“

Kristján segir að nýlega hafi rifjast upp fyrir honum kynning sem hann sá, um að einstaklingar gætu sparað og sparað útblástur með eigin hegðun en það að skipta um lífeyrissjóð hefði miklu meira vægi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsdæmið
Reykjavíkurfjölskyldan í Loftslagsdæminu.

Bjarni segir að Kristján sé þarna að vísa í nýlega rannsókn Nordea bankans sem vakti mikla athygli. Niðurstaðan var sú að fólk gæti vissulega haft jákvæð áhrif með því að fækka bílferðum og borða minna af kjöti en það að beina fjármunum í sjóði eða fjárfestingar sem leggja áherslu á sjálfbærni og umhverfismál geti haft 27 sinnum meiri áhrif en allar hinar aðgerðirnar samtals.“

Grænum tækifærum fjölgar á Íslandi

En geta Íslendingar ráðstafað fjármunum sínum með grænum hætti? Tekið græn lán? Bjarni segir að þróunin hafi verið hröð á síðustu tveimur árum. „Það hefur verið magnað að fylgjast með framvindunni hérna heima á Íslandi, það var ekki fyrr en 2018 sem fyrsta fyrirtækið gaf út eitthvað sem heitir græn skuldabréf á Íslandi, þekkt fyrirbæri á erlendum mörkuðum en samt bara rúmlega tíu ára saga. Í Kjölfarið er stofnaður fyrsti græni skuldabréfasjóðurinn þar sem einstaklingar geta sett fimm eða tíuþúsundkall, hann fjárfestir meðal annars í grænum skuldabréfum. Svo hafa verið að koma fleiri vörur.“

Hann segir að til dæmis séu komnir grænir innlánsreikningar. Fólk getur þá treyst því að sparnaði þess sé aðeins varið til grænna verkefna. „Þetta eru ekki margir kostir á Íslandi, sem einstaklingar geta sett sína peninga í en það er allt útlit fyrir að þeim fari fjölgandi,“ segir Bjarni.  

Engar grænar leiðir hjá lífeyrissjóðunum

Kristján bendir á að langstærsti sparnaðurinn hans liggi hjá lífeyrissjóðnum og spyr Bjarna hvort einhver munur sé á íslensku lífeyrissjóðunum eða einhverjar grænar leiðir í boði innan sjóðanna. „Ég veit að þeir eru að skoða sín mál um hvernig er hægt að finna fjárfestingatækifæri í þessu. Það eru enn ekki komnar neinar sérstakar leiðir sem er hægt að velja, við erum bara rétt að sjá fyrstu dæmi þess á Norðurlöndunum, til dæmis í Danmörku að einstaklingar geti valið að lífeyrissjóðnum þeirra sé varið í ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar,“ segir Bjarni Herrera. 

Bjarni vonar að lífeyrissjóðir hér fari að bjóða upp á slíka kosti en bendir á að í millitíðinni geti almenningur, sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum, beitt sér fyrir því að lífeyrissjóðirnir horfi til þessara möguleika. „Að hafa samband við lífeyrissjóðinn, spyrja spurninga, skoða skýrslur, mæta á aðalfundi. Það eru allt tækifæri þar sem hægt er að beita sér.“

Kýs gott líf fram yfir aðeins meiri ávöxtun

Kristján stefnir að því að fara á eftirlaun eftir um það bil 25 ár og segir að það skipti sig auðvitað máli að fá ávöxtun á peninginn, en það skipti meira máli að hér verði áfram siðmenning og gott líf. „Af því að það sem gæti gerst, ef við pössum okkur ekki, er að það verði bara allt komið í kalda kol. Flóttamannastraumur út af áhrifum loftslagsbreytinga annars staðar, verulega breyttar neysluvenjur, sjávarútvegurinn hruninn, jöklarnir bráðnaðir, allt það. Hvernig verður eiginlega lífið eftir 25 ár? Ég vil að það verði gott líf, mér finnst það mikilvægara en hvort ég fæ 5% eða 4% ávöxtun.“

Bjarni segir þetta góðar og gildar vangaveltur. Fleiri og fleiri séu farnir að leiða hugann að þessum málum. Hann spyr Kristján hvernig hann myndi vilja sjá sparnaðinum sínum ráðstafað. „Ég myndi vilja að hann nýttist í þessa umbreytingu sem þarf að verða, til dæmis til að fjármagna orkuskipti í samgöngum eða einhvers konar umbreytingu sem verður að vera á fyrirtækjum, ekki til að fjármagna einhvern mengandi iðnað.“

epa08348372 Pump jacks operate in the oil fields near Midland, Texas, USA, at sunrise 07 April 2020. Midland, Texas is a city in western Texas, part of the Permian Basin area. Low oil prices are reportedly causing also the gas prices to drop dramatically.  EPA-EFE/LARRY W. SMITH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kristján vill að peningarnir sem hann leggur inn í banka nýtist til að styðja við orkuskipti í samgöngum.

„Bankinn á ekki að ráða“

Bankarnir eru farnir að bjóða græn bílalán, þá er hægt að fá lán á aðeins betri kjörum en ef verið væri að kaupa bensínbíl. Kristján myndi vilja sjá svona húsnæðislán líka. „Það gæti verið næsta skref, fyrir þá sem eru að byggja svansvottaðar íbúðir eða einhverjar íbúðir sem nota minni steypu, eitthvað svoleiðis, að það sé hægt að njóta betri lánskjara á móti svoleiðis eignum.“

Bjarni Herrera segir að þessi hagstæðu lán fái vonandi fólk sem ekki hefur endilega mikinn áhuga á loftslagsmálum, til þess að hugsa. „Heyrðu ókei, það er ódýrara að fara þessa leið. Því það er alveg klárt að þetta þarf að breytast mjög hratt, þessi orkuskipti.“

Kristján segir að sér fyndist eðlilegast að fólk fái að ráða því hvernig bankar ráðstafa fjármunum þess. „Ef við hugsum um mat. Ég fer út í búð og kaupi í matinn en ég ætla ekki að láta búðina velja hvað ég borða, skilurðu. Það er svolítið svipað með peninginn, ég ræð hvar ég set hann í banka en ég ætla ekkert að láta bankann ráða því í hvað peningurinn minn er notaður, ég ætla bara að velja það sjálfur.“

Þetta væri ný hugsun. Bjarni segir að hingað til hafi fjármálakerfið verið byggt þannig upp að bankarnir ráði öllu. „Þegar maður leggur þúsundkall inn á reikning getur bankinn ráðstafað honum með hvaða hætti sem er, þetta er kannski að breytast núna, með þessum grænu sjóðum og innlánsreikningum, þá er maður að leggja þúsundkallinn þangað og bankinn verður bara að gera mjög afmarkaða hluti við þann pening.“

Grænn skuldabréfamarkaður í sókn

Bjarni býst við því að grænum valmöguleikum fjölgi hratt á næstunni og eftirspurnin eftir þeim sömuleiðis. Það græna verði í framtíðinni ekki bara hluti af fjármálakökunni heldur kakan sjálf. „Mestu sérfræðingarnir í þessum græna fjármálaheimi spá því að innan fárra ára þá verði skrítið ef aðilar eru ekki að beita sér fyrir grænu, þannig að þetta græna eða sjálfbæra, það verði nýja normið.“

Við getum ráðstafað hluta peninganna okkar eftir grænum leiðum en hvað vitum við um loftslagsáhrif þess penings sem við leggjum inn á almennan, bankareikning. Eru bankarnir mikið að fjárfesta í mengandi iðnaði? Er hægt að segja að sumir íslensku bankanna séu grænir og aðrir brúnir? Kristján telur ekki mikinn mun á stóru bönkunum þremur. „Mig grunar að íslensku bankarnir séu sirka með einn þriðja af markaðnum hver, ég held þeir séu alveg ofsalega líkir og það sem þeir lána skítugt er bara jafnmikið og skítug starfsemi er á Íslandi. Úti í heimi er þetta öðruvísi, þar ertu með stór olíufyrirtæki og þú ert með einhver námafyrirtæki og miklu sérhæfðari starfsemi.“

Reykjavíkurborg gaf út fyrstu grænu skuldabréfin í íslenskum krónum haustið 2018. Til viðbótar hafa sex félög gefið út slík bréf, þar á meðal Íslandsbanki, Orkuveitan, Félagsbústaðir og Reginn fasteignafélag. Borgin er enn eina sveitarfélagið. Bréf hennar fá hæstu einkunn, dökkgræna, hjá CICERO, miðstöð alþjóðlegra loftslagsrannsókna, og eru gefin út vegna uppbyggingar Borgarlínu og fleiri verkefna. Græni markaðurinn stækkar ört og árið 2020 var metár, þrátt fyrir COVID. Það hafa verið gefin út græn skuldabréf fyrir hátt í 200 milljarða króna og á yfirlitssíðu Circular solutions yfir græna markaðinn hér kemur fram að bréfin hafi komið í veg fyrir losun tæplega 400 þúsund tonna af koltvísýringsígildum. Samt er bara búið að grænka lítið brot af íslenska skuldabréfamarkaðinum. 

Grænu bréfin rati til lífeyrissjóðanna

Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Fossum mörkuðum, segir að flest þau grænu bréf sem hafa verið gefin út í íslenskum krónum hafi ratað í bækur lífeyrissjóðanna. Þar spilar inn í löggjöf frá árinu 2017 sem skikkaði lífeyrissjóðina til að horfa í auknum mæli til samfélags og umhverfis í fjárfestingastarfsemi, ekki bara í peningana. 

Íslenska ríkið hefur ekki gefið út græn bréf en það er til skoðunar. Fyrir rúmu ári var Andri á því að Ísland gæti orðið fyrst ríkja heims til að gefa eingöngu út græn skuldabréf - en COVID-útgjöld hafa sett strik í reikninginn, í dag tæki mun lengri tíma að skipta brúnum bréfum út fyrir græn. Hann segir stjórnvöld ekki hafa liðkað sérstaklega fyrir viðskiptum með þessi bréf, Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir því að græn bréf verði undanþegin skatti eða að bönkum væri ívilnað fyrir að fjárfesta í þeim. 

Gagnsæið mætti vera meira

Ísland er eftirbátur hinna Norðurlandanna þegar kemur að grænum fjármálum, gagnsæið mætti vera meira. Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, Landvernd, Foreldrar fyrir framtíðina og Ungir umhverfissinnar hafa síðastliðin ár reynt að afla upplýsinga um hvort íslensk fjármálafyrirtæki séu að fjárfesta í olíu- og kolaiðnaði. Af 45 fyrirtækjum hefur 21 svarað. Víða í nágrannalöndum okkar hafa bankar og lífeyrissjóðir gefið út að þeir hyggist færa fjármagn sitt úr kola- og olíuiðnaði, koma því í annan farveg. Divestment er þetta kallað. Hér hefur ekki borið á slíkum yfirlýsingum og svörin sem félagasamtökin fengu voru fæst afdráttarlaus. Lífeyrissjóðir sögðust flestir taka mið af umhverfis- og samfélagslegum þáttum við mat á fjárfestingarkostum en fæstir höfðu beinlínis útilokað að fjárfesta í olíu eða kolum. Þá gátu þeir sjaldnast fullyrt um örlög þeirra fjármuna sem þeir ávöxtuðu í hinum ýmsu fjárfestingasjóðum þó þeir teldu ólíklegt að stór hluti peninganna rataði inn á reikninga bensínframleiðenda. 

Ekki öll græn skuldabréf í takt við lágkolefnisframtíð

Græn skuldabréf eru klárlega betri en brún, þau eru vottuð - en er víst að það að fjárfesta í þeim leiði til samdráttar í losun? Er endalaust hægt að gefa út græn skuldabréf vegna til dæmis svansvottaðra húsa? Svansvottuð hús losa minna en hús sem ekki eru svansvottuð - en þau losa samt. Samkvæmt flokkun CICERO stuðla dökkgræn skuldabréf að framtíð þar sem losun er lítil og innviðir til að takast á við loftslagsbreytingar sterkir. Ljósgrænu bréfin eru annar handleggur - ekki endilega í takt við lágkolefnisframtið en stuðla þó að einhverjum úrbótum - kolaver gæti til dæmis gefið þau út til að setja upp búnað sem dregur úr útblæstri.

Kristján Rúnar og Bjarni Herrera ræddu græn fjármál og hringrásarhagkerfið í sjötta þætti Loftslagsdæmisins. Hér má hlusta á þáttinn í heild. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Kvíðinn getur ekki verið eini drifkrafturinn

Menningarefni

Skoðaðu kolefnisspor fjölskyldnanna í Loftslagsdæminu

Menningarefni

„Nú eigum við svo mikið af börnum“