Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

KPMG skylt að afhenda héraðssaksóknara gögn um Samherja

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Endurskoðunarfyrirtækið KPMG verður að afhenda embætti héraðssaksóknara umbeðnar upplýsingar og gögn um bókhald og reikningsskil allra félaga og fyrirtækja innan Samherjasamstæðunnar frá árunum 2011 til ársins 2020. Einnig ber KPMG að afhenda héraðssaksóknara upplýsingar og gögn varðandi eina, tiltekna skýrslu, sem fyrirtækið vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014. Kjarninn greinir frá þessu.

Í frétt Kjarnans segir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi skorið úr um þetta í byrjun desember á síðasta ári. Í úrskurði sínum féllst dómarinn á kröfur héraðssaksóknara um að KPMG væri skylt að afhenda gögnin og að hvort tveggja núverandi og fyrrverandi starfsfólki félagsins yrði gert skylt að veita embætti hans þær upplýsingar sem það byggi yfir.

Skylt að aflétta trúnaði sem að öllu jöfnu er bundinn í lög

Með þessu er KPMG í raun skyldað til að aflétta þeim trúnaði sem lög kveða annars á um að ríkja skuli milli endurskoðenda og viðskiptavina þeirra. Er það  rökstutt með því, að rannsókn héraðssaksóknara beinist að ætluðum brotum yfirmanna og starfsmanna Samherja og að til að upplýsa þau telji hann nauðsynlegt að fá umbeðin gögn frá KPMG í hendur, meðal annars til að kanna fjárhags- og rekstrarafkomu fyrirtækisins og hvernig því er stjórnað.

Úrskurðir Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur

Samherji áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar, sem vísaði málinu frá í síðustu viku.

Líkum leitt að því að Þorsteinn Már hafi verið nær einráður

Fjallað var um drög að áminnstri skýrslu frá 2014 í bók þeirra Helga Seljas, Aðalsteins Kjartanssonar og Stefáns A. Drengssonar, Ekkert að fela, árið 2019. Í henni kemur meðal annars fram að sérfræðingar KPMG meti það sem svo, að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og stjórnarformaður Samherja, sé svo gott sem einráður í fyrirtækinu og með alla þræði í hendi sér.