Ísafjörður semur við Kómedíuleikhúsið til tveggja ára

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin

Ísafjörður semur við Kómedíuleikhúsið til tveggja ára

06.02.2021 - 18:04

Höfundar

Ísafjarðarbær og Kómedíuleikhúsið í Haukadal í Dýrafirði hafa gert með sér tveggja ára samning um uppsetningu og sýningu leikverka samkvæmt fyrirfram ákveðinni dagskrá. Elfar Logi Hannesson leikari stofnaði Kómedíuleikhúsið árið 1997 sem hann segir fyrsta og eina atvinnuleikhús Vestfjarða.

Bæjarstjórn Ísafjarðar staðfesti samninginn við leikhúsið á fundi síðastliðinn fimmtudag. Þar segir að tilgangurinn sé að efla og glæða áhuga bæjarbúa á leiklist og auðga menningarlíf í bænum, auk þess að styrkja eina atvinnuleikhús Vestfjarða.

Kómedíuleikhúsið fær 1750 þúsund króna styrk frá bænum hvort ár. Leikhúsinu er ætlað að sýna leikatriði á hátíðahöldum 17. júní í samráði við upplýsingafulltrúa bæjarins og tekur tvisvar þátt í jólasveinadagskrá Safnahússins hvort ár. 

Jafnframt mun leikhúsið sýna grunn- og leikskólabörnum í Ísafjarðarbæ eina leiksýningu eða menningardagskrá á ári sem verði sett upp í skólunum sjálfum. Eins verði eldri borgurum í bænum boðið upp á hið minnsta tvær sýningar á hvoru ári. 

Frá stofnun hefur Kómedíuleikhúsið sett upp 45 leikverk sem flest tengjast sögu Vestfjarða á einn eða annan hátt. Leikhúsið hefur einbeitt sér að einleikjum sem hafa verið settir upp víðsvegar um land. 

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Bjóða Pólverja velkomna í leikhús á Íslandi

Leiklist

Verðlaunasýningar eftir krakka í Borgarleikhúsinu

Leiklist

Grét á leiksýningu um sjálfan sig

Innlent

Hlakka til að hrífa leikhús- og tónleikagesti á ný