Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjöldabólusetningarstöð í Laugardalshöll í undirbúningi

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. - Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Heilsugæslan á Höfuðborgarsvæðinu og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins eru í óðaönn að undirbúa fjöldabólusetningarstöð í Laugardalshöllinni. Gert er ráð fyrir að hægt verði að bólusetja mun fleiri en áður frá og með miðvikudeginum.

Enn er ekki ljóst hvort verður af samningi við Pfizer um tilraun til að ná hjarðónæmi á Íslandi, en það á að skýrast á næstu dögum. Fyrstu 1.200 skammtar bóluefnis AstraZeneka bárust til landsins í dag. 

Búið er að koma upp tjöldum og skiltum í höllinni sem eiga að flýta fyrir bólusetningu. Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við fréttastofu að verði Íslendingar nægilega heppnir til að samingar náist við Pfizer sé áætlunin tilbúin.

Nú sé verið að prófa aðstöðuna í Laugardalshöllinni með tilliti til þess að tryggja öryggi, að sóttvarnarreglum verði fylgt og flæði náist innanhúss. Auk þess verði hægt að bregðast við ef dreifingaráætlun bóluefna breytist.

Óskar segir mögulegt verði að taka á móti allt að tíu til fimmtán þúsund manns á dag í Laugardalshöllinni.  Óskar segir að bílastæðaskortur hafi hamlað hve mörgum hefði verið hægt að taka á móti við Suðurlandsbraut en það sé ekki vandamál við Laugardalshöll. 

Áfram verður haldið að taka sýni í aðstöðunni við Suðurlandsbraut.