Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningu um eld í tveimur bílum við afleggjarann að Álfsnes í Mosfellsbæ um klukkan níu í kvöld. Tveir slökkvibílar voru sendir af stað en öðrum var fljótlega snúið við.
Að sögn varðstjóra logaði talsverður eldur í bílunum þegar slökkvilið bar að garði og nú er unnið að slökkvistarfi. Ekki er vitað hvort bílarnir voru nothæfir eða flök. Engin hætta mun hafa skapast við eldsvoðann, hvorki fyrir menn né mannvirki. Að öðru leyti hefur dagurinn verið rólegur að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu.