Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Ég held að ritstífla sé ekkert annað en kvíði“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Ég held að ritstífla sé ekkert annað en kvíði“

06.02.2021 - 08:34

Höfundar

Bók Maríu Elísabetar Bragadóttur, Herbergi í öðrum heimi, vakti mikla athygli fyrir jólin. „Oft eru efnistökin eitthvað alvarlegt eða sorglegt eða það sem mér finnst sjálfri jafnvel erfitt að hugsa um,“ segir hún.

María Elísabet er nýr höfundur, smásagnasafnið Herbergi í öðrum heimi er hennar fyrsta útgefna verk og þykir með betri frumraunum íslenskra höfunda í nokkurn tíma. Það vakti athygli margra hve góð tök hún hafði á knöppu formi smásagnanna. Hún segist þó hafa uppgötvað smásagnaformið seint. Hún hafi sjálf einkum lesið skáldsögur og var efins um að smásagan gæti boðið upp á jafn flókna framvindu og fléttu. „En ef smásagan heppnast getur hún verið svo lagskipt og djúp og það var það sem ég vildi gera í mínum sögum.“

Bókin hefur að geyma sjö sögur og María Elísabet segir að undirliggjandi þráður tengi þær saman. „Það er alltaf eitthvað óorðað eða látið ósagt. Það er einhver saga á yfirborðinu, kannski einhver saga sem sögupersóna segir sjálfri sér og síðan er einhver saga undirniðri líka og eitthvað á milli línanna.“

Hún hefur afslappaða afstöðu gagnvart ritstörfum og virðist ekki upptekin af því að geta kallað sig rithöfund. „Ég held að rithöfundur sé sá sem að skrifar. Það er flott að kalla sig rithöfund en ég held að einhver 18 ára stelpa sem er alltaf skrifandi, hún er alveg rithöfundur.“

Henni þykir óheyrilega gaman að skrifa en segir að það séu tvær hliðar á þeim peningi. „Að lesa og skrifa er örugglega það skemmtilegasta sem ég geri en á sama tíma þá ætla ég ekki að gera lítið úr því að mér finnst það mjög erfitt oft og grjótmulningur. Öll umgjörð í kringum skrif eru erfið. Ég var alltaf kvíðin þegar ég var ekki að skrifa, sem ég hugsa að margir höfundar upplifa. Ég held að ritstífla sé ekkert annað en kvíði, þá viltu ekki fá hugmyndirnar ... Ég held að það sé ómögulegt að fá ekki það slæma með því góða.“

Næst má eiga von á skáldsögu frá Maríu Elísabetu, þó segist hún ekki hafa sagt skilið við smásögurnar eftir vel heppnaða atlögu að þeim.