Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Alþjóða glæpadómstóllinn með lögsögu í Palestínu

epa04955313 Prosecutor Fatou Bensouda waits for former Congo Vice President Jean-Pierre Bemba to enter the court room of the International Criminal Court (ICC) to stand trial with Aime Kilolo Musamba, Jean-Jacques Mangenda Kabongo, Fidele Babala Wandu and
Fatou Bensouda, aðalsaksóknari við Alþjóða glæpadómstólinn í Haag. Mynd: EPA - AP POOL VIA ANP
Alþjóða glæpadómstóllinn í Haag komst í gær að þeirri niðurstöðu, að hann hefði umboð og lögsögu til að taka til umfjöllunar stríðsglæpi og önnur grimmdarverk sem framin eru á Gaza, Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalemborgar. Úrskurðurinn gerir saksóknurum dómstólsins kleift að hefja rannsókn á ætluðum glæpum á yfirráðasvæðum Palestínumanna.

Yfirsaksóknari dómstólsins, Fatou Bensouda, hefur kallað eftir slíkum rannsóknum og sagt fyllstu ástæðu til að ætla, að stríðsglæpir hefðu verið framdir.

Palestínumenn fagna, Ísraelar fordæma

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, gagnrýnir úrskurð dómstólsins en leiðtogar Palestínumanna fagna honum. „Þessi niðurstaða [Alþjóða glæpadómstólsins] er sigur fyrir réttlætið og mannkynið, fyrir hugmyndir okkar um sannleika, sanngirni og frelsi, og fyrir blóð fórnarlambanna og fjölskyldur þeirra,“ hefur palestínska fréttastofan Wafa eftir Mohammad Shtayyeh, forsætisráðherra Palestínu.

Ísrael á ekki aðild að Alþjóða glæpadómstólnum og viðurkennir ekki lögsögu hans. Í yfirlýsingu forsætisráðherrans Netanyahus heitir hann því að „vernda alla borgara okkar og hermenn“ fyrir saksókn af hálfu þess „pólitíska fyrirbæris“ sem dómstóllinn sé. „Með úrskurði sínum skerðir dómstóllinn rétt lýðræðisríkja til að verja sig,“ segir Netanyahu.

Ár er liðið frá því að Bensouda greindi frá því að forathugun hefði leitt í ljós að allar forsendur til að hefja rannsókn á stríðsglæpum í Palestínu væru fyrir hendi. Í greinargerð sinni nefndi hún hvort tveggja Ísraelsher og vopnaðar hreyfingar Palestínumanna, svo sem Hamas og Heilagt stríð, sem mögulega gerendur.