Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Viðskiptablaðið sýknað í meiðyrðamáli Lúðvíks

05.02.2021 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ritstjóri Viðskiptablaðsins var í morgun sýknaður í meiðyrðamáli sem Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, höfðaði á hendur blaðinu vegna skrifa sem birtust í skoðanadálkinum Óðni í apríl á síðasta ári. Lúðvík krafðist þess að ritstjóri blaðsins, Trausti Hafliðason, yrði gert að greiða þrjár milljónir í miskabætur.

Skrifin snerust um störf Lúðvíks sem óháðs kunnáttumanns með framkvæmd sáttar sem N1 gerði við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa á Festi. 

Athygli vakti þegar Fréttablaðið greindi frá því að kostnaður af störfum hans næmi 33 milljónum.   

Óðinn, sem er nafnlaus skoðanapistill í Viðskiptablaðinu, sagði meðal annars að „öll skynsemis-og réttlætisrök virðast hníga að því að Festi kæri kunnáttumanninn fyrir tilhæfulausa reikninga.“ 

Lúðvík sagði í stefnu sinni að í skrifum sínum hefði Óðinn gefið í skyn að hann hefði haft fjármuni af N1/ Festi með ólögmætum hætti.  Hann hefði þannig gerst sekur um alvarleg hegningarlagabrot og væri gefið að sök fégræðgi og spillingu. 

Lúðvík taldi ekki nokkurn fót fyrir þeim ummælum sem birtust í hinum nafnlausa skoðanadálki. Með þeim væri vegið alvarlega að æru hans og heiðri og þau sett fram á opinberum vettvangi gegn betri vitund.

Héraðsdómur telur að ummælin hafi fallið innan marka 73. greinar stjórnarskrárinnar. Ekki hafi verið gengið nær einkalífi Lúðvíks en óhjákvæmilegt var. 

Dómurinn taldi einnig að horfa yrði til þess rýmkaða tjáningarfrelsis sem fjölmiðlar njóti í nútímasamfélagi auk þess sem Lúðvík væri þjóðkunnur einstaklingur.

Viðskiptablaðið var því sýknað og Lúðvík gert að greiða 1,5 milljónir í málskostnað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV