Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Talsvert um tilkynningar vegna drykkju sótthreinsivökva

05.02.2021 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Aukning hefur orðið í tilkynningum til Eitrunarmiðstöðvar Landspítala vegna þess að fólk hefur drukkið sótthreinsivökva fyrir misgáning. Tilvikum þar sem fólk innbyrðir nikótínpúða hefur fjölgað aftur eftir að hafa fækkað mikið eftir að athygli var vakin á hættunni af því í haust og þá er talsvert um að börn innbyrði kúlur sem eiga að auka virkni mýkingarefnis.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Eitrunarmiðstöðvar fyrir síðasta ár. Þar segir að í fyrra hafi miðstöðinni borist 2.445 símtöl, sem eru um sjö á dag. 

Helena Líndal lyfjafræðingur og sérfræðingur í klíníkskri eiturefnafræði á Eitrunarmiðstöð segir að síðasta haust hafi verið ráðist í átak vegna fjölda tilkynninga um nikótínpúða. Næstu vikur á eftir hafi engar tilkynningar borist en í janúar hafi þær verið orðnar svipað margar og áður. 

„Við fundum marktæka fækkun á símtölum, þeim fækkaði næstu sex vikur á eftir og fólk virtist taka þetta til sín, það hefur kannski ekki meðhöndlað þessa vöru nógu gætilega. Börn hafa verið að komast í púðana og líka fullorðnir sem eru að nota púðana hafa óvart gleypt þá, svelgst á eða sofnað með púðana og gleypt þá þannig,“ segir Helena.

Veistu til þess að einhver hafi þurft að leita læknishjálpar vegna þessa? „Já, það eru vinnureglur hjá Eitrunarmiðstöð að ef barn kemst í nikótínpúða, það er mjög mikið nikótínmagn í þeim, þá vísum við barninu alltaf upp á bráðamóttöku barna.“

Tilkynningum um sótthreinsivökva fjölgaði mikið á síðasta ári, en engar slíkar tilkynningar bárust Eitrunarmiðstöð árið áður. Flestar tilkynningarnar voru vegna þess að vökvinn hafði borist í augu barna og þá var nokkuð um að bæði börn og fullorðnir innbyrtu hann. 

„2019 vorum við ekki að fá neinar tilkynningar út af svona sótthreinsispritti. Þetta var ekkert í almennri notkun þannig að við vorum ekki að fá nein símtöl. Við finnum fyrir því þegar eitthvað nýtt kemur á markað og er dreift víða, eins og sótthreinsispritt, að þá fjölgar símtölunum hjá okkur varðandi þessa vöru,“ segir Helena. 

Eitrunarmiðstöðinni berst nokkuð af tilkynningum um að börn gleypi litlar kúlur sem ætlaðar eru til að auka virkni mýkingarefna. Helena segir að ein slík kúla valdi litlum skaða, en séu þær fleiri geti  skaðinn orðið meiri. „Lítil börn sem eru skríðandi og nálægt einhverjum sem er að setja í vélina eiga það til að gleypa svona kúlur, við höfum fengið nokkuð margar tilkynningar varðandi þetta.“ 

 

 

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir