Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svandís féllst á tillögur Þórólfs - barir opna á ný

05.02.2021 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, féllst á tillögu Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, þar sem slakað verður varfærnislega á sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Meðal þess sem verður leyfilegt að opna á ný eru skemmtistaðir og barir. Þeir mega hafa opið til 22 og það verður að afgreiða í sæti. Þeir mega ekki taka við nýjum gestum eftir klukkan 21 á kvöldin. Breytingarnar taka gildi á mánudag og gilda í þrjár vikur.

Svandís sagði breytingarnar varfærnar og að hún hefði að öllu leyti farið eftir tillögum sóttvarnalæknis.

Meðal breytinga er að líkamsræktarstöðvar mega opna búningsklefa sína að nýju.  Leyfilegur fjöldi  má þó ekki vera nema helmingurinn af því sem starfsleyfi þeirra segir til um og passa verður upp á að aldrei megi vera fleiri en 20 í sama rými.   Áfram þarf að skrá sig í tíma fyrirfram.

Gestum í leikhúsi fjölgar úr 100 í 150 og söfn mega taka við 150 gestum, uppfylli þau ákveðin fermetrafjölda.  Áfram gildir sú regla að ekki mega fleiri en 20 koma saman og reglur um tveggja metra nándarmörk og grímuskyldu verða í gildi út þennan mánuð. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV