Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nú hefst áratugur aðgerða

Mynd með færslu
 Mynd: Sigyn Blöndal

Nú hefst áratugur aðgerða

05.02.2021 - 08:12

Höfundar

„Ef allir hjálpast að getum við gert heiminn betri,” segir hin 11 ára Steinunn Kristín, alltaf kölluð Dídí, sposk á svip og bætir við að allir þurfi að kynna sér Heimsmarkmiðin betur. Aron Gauti 16 ára tekur undir þetta og segir að það sé flókið en samt í raun frekar einfalt mál að gera heiminn að betri stað.

Aron Gauti og Dídí stýra nýjum þáttum um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem hafa hlotið nafnið HM30. KrakkaRÚV framleiðir þættina í samstarfi við forsætis- og utanríkisráðuneytið og hefur undirbúningsvinna við þættina staðið yfir í nokkra mánuði. Aron og Dídí þekkja nú hvert og eitt Heimsmarkmiðanna inn og út.   

Þegar talið berst að því hvert sé mikilvægasta markmiðið er erfitt að velja. „Ég get eiginlega ekki valið. Þau eru öll svo mikilvæg. En topp fimm markmiðin hjá mér eru líklega bara fyrstu fimm. Og líka markmið 13. Gæti haldið endalaust áfram,” segir Dídí.

Mikilvægasta markmiðið að mati Arons er markmið 17. „Það er það sem þarf að vera í lagi til að við getum unnið að hinum markmiðunum. Það bjargar enginn heiminum einn. Við þurfum samvinnu og samstöðu,” segir hann ákveðinn og greinilegt að vinnan við þættina hefur skilað okkur öflugu baráttufólki gegn óréttlæti heimsins.  

Aron heldur áfram og segir að fyrsti þátturinn fjalli einmitt um markmið 17 sem er samvinna um markmiðin og í fyrsta þættinum verður ýmsum spurningum svarað: Hvað er sjálfbærni? Hver eru þessi Heimsmarkmið? Hvernig tengjast þau öll og hvernig þau nýtast okkur sem leiðarvísir að betra lífi fyrir alla? „Þetta snýst um það að búa til sanngjarnari, jafnari, hreinni og betri heim fyrir alla sem búa hérna á jörðinni og hvað við, ég og þú, getum gert,” segir Aron.   

Hvað þarf mikið vatn til að framleiða einn hamborgara?  

„Það sem kom mér mest á óvart þegar ég var að kynna mér Heimsmarkmiðin var til dæmis hversu mikið vatn þarf til að búa til einn hamborgara, hversu mörg ár börn í sumum löndum fá að vera í skóla, ójafnrétti á milli karla og kvenna á vinnumarkaðnum. Og svona gæti ég haldið áfram,” segir Dídí. Aron bætir við að hann sé himinlifandi yfir því að hafa fengið tækifæri að vinna við þættina. „Það sköpuðust svo djúpar og innihaldsríkar umræður í ferlinu sem gáfu mér svo margt sem ég get tekið með mér áfram út í lífið,” segir hann. 

Þetta eru ekki bara þættir fyrir krakka  

Dídí og Aron eru sammála um að fólk þurfi að þekkja Heimsmarkmiðin betur og þar komi þættirnir sterkir inn. Þau viðurkenna að þau hafi ekki þekkt Heimsmarkmiðin neitt sérstaklega vel áður en þau byrjuðu að vinna við þættina og það sé nú líklega þannig með flesta. „Þessir þættir eru fyrir alla. Það verða allir að vakna, gera sér grein fyrir því hvernig staðan er og við verðum að gera þetta saman,” segir Dídí og bætir við að allir sem voru að vinna við gerð þáttanna hafi verið að uppgötva eitthvað nýtt í hverjum þætti. Í kaffipásum hafi tökumenn og tæknifólk talað um svakalegar upplýsingar, magnaðar staðreyndir og að við yrðum að gera eitthvað í þessu. Það er greinilega enginn of gamall eða of ungur til að horfa á HM30.   

„Við ætlum að ná þessum markmiðum fyrir árið 2030 svo núna er áratugur aðgerða, því þetta gengur of hægt,” segir Dídí.   

Fyrsti þáttur af HM30 er í Húllumhæ föstudaginn 5. febrúar kl. 18.35 og fjallar hann um markmið 17 sem fjallar um samvinnu um markmiðin. Gestur þáttarins er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Í hverri viku verður nýtt markmið kynnt þar til við erum búin að kynna okkur öll Heimsmarkmiðin 17.