Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kvennó hafði betur gegn Menntaskólanum í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir - RÚV
Menntaskólinn í Kópavogi og Kvennaskólinn í Reykjavík mættust í kvöld í fyrstu viðureign átta skóla úrslita í Gettu betur. Kvennaskólinn vann með 21 stigi gegn 15 stigum Menntaskólans í Kópavogi. Kvennó er því komið áfram í undanúrslit. 

Kvennaskólinn leiddi eftir hraðaspurningar með 13 stigum gegn 5 og hélt góðri forystu allt til loka. 

Lið Kvennaskólans í Reyjavík eru þau Hildur Sigurbergsdóttir, Ari Borg og Áróra Friðriksdóttir. Lið Menntaskólans í Kópavogi er skipað þeim Gunnheiði Guðmundsdóttur, Jasoni Mána Guðmundssyni og Agli Orra Elvarssyni.

Jó­hann Al­freð Krist­ins­son og Lauf­ey Har­alds­dótt­ir eru spurn­inga­höf­und­ar og dóm­ar­ar í Gettu bet­ur. Kristjana Arn­ars­dótt­ir er spyr­ill, þriðja árið í röð og Sæv­ar Helgi Braga­son er spurningahöfundum mjög innan handar. 

Næsta föstudag, þann 12. febrúar, mætast lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ og Menntaskólans í Reykjavík. Lið MR sigraði Borgarholtsskóla í úrslitarimmunni síðastliðið vor og er því handhafi Hljóðnemans, farandgrips keppninnar. 

Spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur er nú háð í 36. sinn en það var Fjölbrautaskóli Suðurlands sem hafði betur gegn Flensborgarskólanum í Hafnarfirði í fyrstu úrslitum keppninnar vorið 1986. 

Þá voru Jón Gústafsson og Þorgeir Ástvaldsson spyrlar, Steinar J. Lúðvíksson dómari og þeir Halldór Friðrik Þorsteinsson og Jón Gunnar Jónsson stigaverðir.