Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kári Stefánsson: Aldarfjórðungs æfing fyrir COVID-19

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Íslensk erfðagreining hlaut í dag UT-verðlaunin fyrir árið 2021 fyrir framlag sitt til baráttunnar við kórónuveiruna. Verðlaunin voru veitt á UT-messunni sem nú stendur yfir, en hátíðin er stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að líta megi svo á að það sem fyrirtækið hefur unnið að undanfarin 25 ár, hafi verið æfing til þess að takast á við COVID-19.

Í rökstuðningi valnefndar UT-messunnar segir meðal annars að framlag Íslenskrar erfðagreiningar í heimsfaraldrinum við raðgreiningu veirusýna sé einstakt. Vinna starfsmanna við skimun, lán á tækjabúnaði og starfsaðstöðu sé ómetanleg á tímum heimsfaraldurs. Tæknigeta og þekking Íslenskrar erfðagreiningar hafi gert það að verkum að Ísland er í fremstu röð þeirra ríkja sem hafa náð mestum árangri í baráttunni gegn COVID-19.

„Raunverulega allt sem við erum búin að vera að gera í aldarfjórðung, leit út eins og við hefðum bara verið að æfa okkur fyrir þetta augnablik. Því að allir starfsmenn fyrirtækisins hoppuðu inn í það að undirbúa okkur undir að skima,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þegar hann tók við verðlaununum. „En það sem upp úr stendur þegar við horfum á þetta núna er að íslenskt samfélag tókst á við þennan faraldur á alveg ótrúlega flottan hátt. Og gerði það með því að nýta nýjustu tækni og vísindi. Gerði það á upplýstari hátt og flottari hátt en nokkurs staðar annars staðar í heiminum.“

Besta mögulega tækni

Rökstuðningur valnefndar UT-messunnar er svohljóðandi, í fullri lengd:

„Framlag Íslenskrar erfðagreiningar í heimsfaraldrinum Covid-19 við raðgreiningu veirusýna er einstakt. Vinna starfsmanna við skimun, lán á tækjabúnaði og starfsaðstöðu er ómetanleg á tímum alheimsfaraldurs ásamt öðru framlagi Íslenskrar erfðagreiningar á þessum skrítnu tímum. Tæknigeta og þekking innan Íslenskrar erfðagreiningar er eftirtektarverð hefur komið Íslendingum til góða í gegnum árin.

Slagorð fyrirtækisins; „Þekking í allra þágu“ er svo sannarlega rétt ef hugað er að því hvað Íslensk erfðagreining hefur gert í gegnum árin. Þannig hefur erfðagreining á orsökum margra alvarlegustu sjúkdóma mannkyns opnað möguleika á að bæta líf og heilsu. Þar má nefna krabbamein, sykursýki, og hjartasjúkdóma. Sérfræðingar fyrirtækisins standa framarlega í rannsóknum og eru meðal áhrifamestu vísindamanna í heiminum og samstarfsnet þeirra víðtækt

Framlag Íslenskrar erfðagreiningar til baráttunnar gegn COVID-19 hefur gert það að verkum að Ísland er í fremstu röð þeirra ríkja sem hafa náð mestum árangri. Strax í byrjun lagði fyrirtækið til tækjabúnað og mannafla til að það mætti skima sem flesta, bæði þá sem voru með einkenni, þá sem tilheyrðu áhættuhópum og stikkprufur úr samfélaginu. Ísland er eina landið í heiminum sem hefur raðgreint öll jákvæð sýni og þannig búið til þekkingu sem hefur skipt sköpum í baráttunni við farsóttina. Auk þess unnu vísindamenn fyrirtækisins að því að túlka þessa þekkingu þannig að hún nýttist heilbrigðisyfirvöldum sem best. Auk vísindamanna, sem eru meðal þeirra fremstu í heiminum í erfðafræði, ráða rannsóknarstofur Íslenskrar erfðagreiningar yfir bestu mögulegu tækni sem fáanleg er á hverjum tíma. Allt í allt er verðmæti tækjanna á rannsóknarstofunni sem eru notuð við að raðgreina erfðamengi ígildi 25 milljóna Bandaríkjadala en hvert tæki úreldist á um fimm árum. Íslensk erfðagreining rekur einnig rannsóknarstofu sem gerir háafkasta arfgerðargreiningu (e, genotyping). Með þeirri arfgerðargreiningu er einungis verið að skoða ákveðna þekkta staði/niturbasa í erfðamenginu. Þessi aðferð gefur engu að síður miklar upplýsingar um arfgerðina. Auk þess er hún ódýrari og fljótvirkari en raðgreiningin.  Íslensk erfðagreining rekur tölvuklasa sem inniheldur tæplega 60.000 kjarna Til að knýja þennan tölvuklasa og annan búnað þarf mikið rafmagn. Í dag er orkunotkunin um 20.000 kílówattstundir á dag eða álíka mikið og 1700 venjuleg heimili nota eða allt Seltjarnarnesið svo dæmi sé tekið.“

Lykilhlutverk í flutningi á viðkvæmum vörum

Þrenn önnur verðlaun voru veitt á UT-messunni í dag.

Controlant var var valið UT-fyrirtækið 2020. Rökstuðningur valnefndar var svohljóðandi:

„Hug- og vélbúnaður frá Controlant hefur gegnt lykilhlutverki við flutning á viðkvæmum vörum svo sem matvælum og lyfjum síðustu ár. Þannig sjá framleiðendur mikilvægar rauntímaupplýsingar um hita og rakastig með nettengdum gagnaritum sem Controlant hannaði sem hefur komið í veg fyrir sóun á viðkvæmum vörum og tryggt gæði þeirra. Nú á tímum Covid hefur lausnin þeirra verið notuð af lyfjafyrirtækjum til að flytja viðkvæm bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Það sýnir sig enn og aftur að nýsköpun og tækni á Íslandi er framarlega og frábært að sjá félagið vaxa og dafna hratt síðasta árið.“

Bæta líðan sjúklinga

Þá fékk Sidekick Health verðlaunin UT-sprotinn 2020. Um það sagði valnefndin:

„Sidekick var stofnað árið 2014 og sérhæfir sig í þróun á stafrænum heilbrigðislausnum og fjarheilbrigðiskerfum, sem meðal annars bæta líðan sjúklinga, auka meðferðarheldni og draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk. Félagið starfar með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum og heilsutryggingarfélögum. Í byrjun COVID-19 faraldursins þróaði Sidekick lausn á rúmum tveimur vikum fyrir sjúklinga í einangrun, sem greindust með COVID-19, þar sem starfsfólk Landspítalans getur fylgst með þróun einkenna og líðan í gegnum kerfið. Sjúklingar hlaða smáforriti í símann sinn og skrá einkenni daglega, auk þess að hafa aðgang að fræðsluefni um sjúkdóminn. Afurðin hefur nú verið aðlöguð að öðrum sjúkdómaflokkum og er komin í notkun víðar í Evrópu og í Bandaríkjunum.“

Auðvelda upplýsingagjöf

Loks fékk Embætti landlæknis verðlaunin UT-stafræna þjónustan 2020.

„Embætti landlæknis hefur borið hitann og þungann af þeim tæknilausnum sem þróaðar hafa verið á methraða til að auðvelda upplýsingagjöf og utanumhald vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þannig hoppað á mettíma inn í framtíðina með nýjum lausnum og viðbótum við lausnir sem þegar voru til staðar. Helst má þar nefna www.covid.is, Heilsuveru og sýnatökukerfi. Samspil þessara kerfa við Heklu heilbrigðisnet, gagnagrunna Sóttvarnalæknis, smitrakningakerfi, Sögu sjúkraskrárkerfi, Heilsugátt LSH ásamt rannsóknarstofukerfi ÍE og LSH ásamt fleiri kerfum hefur skipt sköpum varðandi utanumhald Covid á Íslandi. Áframhaldandi verkefni eins og utanumhald og boðun í bólusetningar koma öllum til góða og frábært að sjá hve hratt og vel það hefur gengið að fá almenning til að nota allar þessar stafrænu lausnir,“ sagði í rökstuðningi valnefndar.

UT-messan heldur áfram á morgun, laugardag, frá 12-17. Dagskráin fer fram á netinu og aðgangur er ókeypis.