Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Íranskur diplómati í 20 ára fangelsi fyrir samsæri

05.02.2021 - 03:46
Erlent · Asía · Austurríki · Belgía · Frakkland · Hryðjuverk · Íran · Þýskaland · Evrópa · Stjórnmál
Öryggisgæsla við dómshúsið í Antwerpen, þar sem réttað var yfir fjórum Írönum, þremur körlum og einni konu, vegna samsæris um hryðjuverk sem til stóð að fremja árið 2018. Fjórmenningarnir voru dæmdir í 15, 17, 18 og 20 ára fangelsi.
Mikil öryggisgæsla var við dómshúsið í Antwerpen, þar sem réttarhöldin yfir fjórmenningunum fóru fram. Mynd: AP
Belgískur dómstóll dæmdi í gær íranskan diplómata í 20 ára fangelsi fyrir aðild að samsæri um hryðjuverk sem fremja átti í Frakklandi 2018. Ætlað skotmark hryðjuverkamannanna var hópur útlægra Írana, sem kom saman til fundarhalda nærri París.

Diplómatinn, Assadolah Assadi, starfaði í íranska sendiráðinu í Vínarborg. Saksóknarar héldu því fram að hann væri sekur um tilraun til hryðjuverks, sem lögreglu í Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi tókst í sameiningu að koma í veg fyrir.

„Hefði getað orðið mikið blóðbað“

„Dómurinn sannar tvennt: Að diplómatar njóta ekki friðhelgi verði þeir uppvísir að glæpsamlegum athöfnum [...} og ábyrgð íranska ríkisins á því sem hefði getað orðið mikið blóðbað,“ sagði saksóknarinn Georges-Henri Beauthier þegar hann ávarpaði fréttamenn eftir að dómur var upp kveðinn í gær.

Er þetta í fyrsta sinn sem íranskur stjórnarerindreki er ákærður og dæmdur fyrir hryðjuverk í Evrópusambandsríki, eftir að klerkastjórnin tók völdin í Íran árið 1979.

Diplómati í Austurríki en handtekinn í Þýskalandi

Assadi var sem fyrr segir starfsmaður íranska sendiráðsins í Austurríki þegar hann var handtekinn í Þýskalandi, þar sem hann naut ekki friðhelgi. Þykir sannað að hann hafi útvegað og afhent vitorðsmönnum sínum sprengiefni sem nota átti í árásinni.

„Skýrt brot á Vínarsáttmálanum“

Íranska utanríkisráðuneytið mótmælti handtöku Assadis harðlega á sínum tíma og fordæmdi úrskurð belgíska dómstólsins í gær. Í yfirlýsingu ráðuneytisins ítrekar það þá afstöðu sína að handtaka Assadis sé skýrt brot á ákvæðum Vínarsáttmálans um friðhelgi diplómata.

Jafnframt segir að allra leiða verði leitað til að gæta réttinda Assadis og draga stjórnvöld þeirra ríkja, sem svo gróflega hafi brotið gegn Vínarsáttmálanum, til ábyrgðar.

Þrennt var í vitorði með Assadi; belgísk-íranskt par og íranskt skáld, öll búsett í Belgíu. Þeirra hlutverk var að fremja sjálfa árásina og voru þau dæmd í 15, 17 og 18 ára fangelsi. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV