Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimilar loðnuveiðar í samræmi við ráðgjöf Hafró

05.02.2021 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Grétar Guðmundsson
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í morgun reglugerð um veiðar á loðnu í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Heimilt er að veiða rúmlega 127 þúsund tonn, en vonast er að þau skili útflutningsverðmætum upp á hátt í tuttugu milljarða króna.

Á vef ráðuneytisins segir Kristján Þór að þessi ákvörðun sé afrakstur umfangsmestu loðnuleitar seinni ára. Hafrannsóknarstofnun lagði til að það mætti veiða rúm 12 þúsund tonn á vertíðinni, sem er mjög lítið í sögulegu samhengi. Ráðgjöfin byggði á summu tveggja rannsóknaleiðangra sem farnir voru seinnipart janúar. Hrygningarstofn loðnu að þeim loknum er metinn á samtals 650 þúsund tonn.

Í síðustu viku fóru sex uppsjávarskip til leitar og bæði rannsóknaskip Hafrannsóknarstofnunar. Ekki verður farið aftur til leitar að óbreyttu en vel fylgst með fréttum af miðunum. „Með reglugerðinni sem Kristján Þór undirritaði í morgun er íslenskum skipum veitt heimild til veiða á 69.834 tonnum. Ástæða þessa eru gildandi samningar við önnur ríki sem taka þarf tillit til áður en til úthlutunar kemur til íslenskra skipa. Annars vegar er samningur við Norðmenn vegna þorskveiða íslenskra skipa í Barentshafi og hins vegar tvíhliða samningur við Færeyjar,“ segir á vef ráðuneytisins.