Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hátt í 20 milljarða loðnuvertíð framundan

Mynd með færslu
Beitir NK að dæla kolmunna í Rósagarðinum Mynd: www.svn.is
Íslensk uppsjávarskip mega veiða tæp sjötíu þúsund tonn af loðnu í vetur. Hafrannsóknastofnun tvöfaldaði í gær fyrri ráðgjöf um loðnuveiðar. Forstjóri Sildarvinnslunnar áætlar að útflutningstekjur á vertíðinni verði að lágmarki átján milljarðar króna.

Í lokaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um loðnuveiðar í vetur, sem sjávarútvegsráðherra hefur nú fellt inn í reglugerð, er lagt til að veidd verði 127.300 tonn. Þar af koma rúm 69.800 tonn í hlut íslenskra skipa.

„Í skýjunum yfir því að vera búin að fá loðnukvóta“

Nú verður því hægt að halda til veiða eftir tveggja ára loðnubrest. „Við erum náttúrulega fyrst og fremst í skýjunum yfir því að vera búin að fá loðnukvóta. Við megum ekki gleyma því að við erum að koma út tveimur loðnulausum árum. En auðvitað bundum við vonir við meira magn en raun ber vitni, en þetta er samt jákvætt,“ Segir Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar.

Meta hvenær hagstæðast sé að hefja veiðar

Eftir tvö loðnulaus ár sé mikil eftirspurn á mörkuðum fyrir loðnuafurðir. „Þetta magn er með þeim hætti að við munum ekki ná að mæta þeirri eftirspurn að fullu. En nú setjast útgerðirnar bara yfir það með kaupendum og markaðnum, hvernig á að ráðstafa þessu magni þannig að sem best verðmæti fáist fyrir það.“ Og þar sé markaður í Japan fyrir hrognafulla loðnu verðmætastur auk markaða fyrir loðnuhrogn. Loðnan sé enn ekki orðin hæf til vinnslu fyrir þessa markaði og því bíði menn átekta, ræði við kaupendur og meti hvenær best sé að hefja veiðar.

Minnst 17 til 18 milljarða útflutningstekjur

„Mér sýnist það, að því gefnu að við náum einhverju smávegis af norska kvótanum til okkar, að þá séum við að tala um 17 til 18 milljarða. En auðvitað getur það orðið meira, við eigum eftir að sjá aðeins hvað er í markaðnum, hvar verðin enda. Þetta er takmarkandi magn inn í markaðina þannig að það er aðeins óvissa hvar verðin munu enda.“