Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hart sótt að Kerry vegna Íslandsferðar á einkaþotu

05.02.2021 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Repúblikanar á Bandaríkjaþingi sækja hart að John Kerry, ráðgjafa Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum, því hann kom á einkaþotu hingað til lands árið 2019 til að taka við verðlaunum á Arctic Circle þinginu í Hörpu.

John Kerry er fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi. Ekki hafði verið fjallað um ferð hans á einkaþotunni hingað til lands í bandarískum fjölmiðlum þar til í vikunni þegar Fox News komst á snoðir um málið. Kerry er nýskipaður ráðgjafi Joe Biden, Bandaríkjaforseta, í loftslagsmálum.

Kerry kom til Íslands að morgni dags 12. október 2019. Verðlaunin hlaut hann fyrir baráttu sína í umhverfismálum. Í fréttum RÚV þann dag var hann spurður hvort flugferðir hans með einkaþotu geti talist umhverfisvænar. Hann svaraði því til að hann leggi sig fram við að kolefnisjafna ferðir sínar. Hann hafi tekið þátt í samningaviðræðum í loftslagsmálum í langan tíma, meðal annars Parísarsamkomulaginu. Það geti hann ekki gert án þess að fljúga milli landa, það taki of langan tíma að sigla. Kerry sagði að hann teldi því óþarfa fyrir sig að fara í vörn vegna flugferðanna.

Hér má sjá viðtal Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar, fréttamanns RÚV, við John Kerry, frá árinu 2019. Ekki er texti með viðtalinu en hann má lesa hér.

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa gagnrýnt Kerry nokkuð harðlega eftir að fregnirnar um ferðina til Íslands árið 2019 bárust, að því er Fox News greinir frá. Öldungardeildarþingmaðurinn Bill Cassidy spyr í færslu á Twitter hvers vegna Kerry fái að láta eins og reglur eigi ekki við um hann.

Öldungardeildarþingmaðurinn Tom Cotton tekur í sama streng og segir að Kerry hafi sagt starfsmönnum við olíuvinnslu, sem hafi misst störf sín að þeir geti farið að starfa við sólarorku. „En Kerry getur ekki fórnað nógu miklu til að fljúga með áætlunarflugi. Þvílíkur óheiðarleiki,“ segir hann í færslunni.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV