Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hæstiréttur sýknaði Jón af kröfu forseta Hæstaréttar

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Hæstiréttur sýknaði í dag Jón Steinar Gunnlaugsson lögmann og fyrrverandi hæstaréttardómara af kröfu Benedikts Bogasonar forseta Hæstaréttar í meiðyrðamáli. Benedikt krafðist ómerkingar fimm ummæla sem birtust í bók Jón Steinars, Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun, sem kom út árið 2017 og að honum yrðu greiddar tvær milljónir króna með vöxtum og verðtryggingu, auk dráttarvaxta, í miskabætur vegna þeirra.

Jón Steinar hafði áður verið sýknaður af kröfu Benedikts í Héraðsdómi Reykjaness í júní 2018 og Landsrétti í nóvember 2019. Dómurinn klofnaði í afstöðu sinni; þrír dómarar staðfestu dóm Landsréttar, tveir vildu dæma Jón Steinar sekan.

Umrædd ummæli eru í 3. kafla bókarinnar, Hugarástand við Hæstarétt, þar sem fjallað er um mál Baldurs Guðlaugssonar, sem var sakfelldur fyrir innherjasvik og dæmdur til fangelsisvistar af Hæstarétti árið 2012. Þar skrifar Jón Steinar að á Baldri hafi verið framið „það sem kallað hefur verið dómsmorð (.....) felldur var dómur sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“ Benedikt var þá settur hæstaréttardómari, hann myndaði meirihluta réttarins í málinu ásamt þremur öðrum dómurum og eru þeir allir nafngreindir í lok kaflans.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ummælin hefðu verið liður í rökstuddri umfjöllun Jóns Steinars um mikilsvert málefni sem rúmt tjáningarfrelsi gildi um. Þótt ummælin hefðu haft á sér „býsna sterkt yfirbragð staðhæfinga“ yrði talið rétt að líta svo á að í þeim öllum hefði falist gildisdómur Jón Steinars eða ályktanir sem hann taldi sig hafa getið dregið af atvikum máls og aðstæðum öllu.

Þótt ummælin hefðu bæði verið beinskeytt og hvöss yrði ekki talið að þau hefðu verið svo úr hófi fram að þörf væri á því í lýðræðislegu samfélagi, í þágu orðspors annarra eða trausts á dómstólum, að takmarka tjáningarfrelsi Jóns Steinars með því að ómerkja þau.

Þótt ljóst væri að ummælin hefðu meðal annars átt við um Benedikt og kynnu að hafa vegið að starfsheiðri hans, yrði hvorki talið að í þeim hefði falist hrein móðgun né sérstaklega gróf eða persónuleg aðdróttun.

Var J því sýknaður af kröfum B

Einnig var talið að þótt færa mætti gild rök fyrir því að engin þörf hefði verið á því að Jóns Steinars tæki svo sterkt og fyrirvarlaust til orða sem hann gerði þá yrði ekki hjá því litið að vernd tjáningarfrelsisins tæki ekki aðeins til efnis ummæla heldur einnig til framsetningar þeirra. „Að að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nyti verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar yrði að líta svo á að J hefði með ummælum sínum ekki vegið svo að æru B að það hefði farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsisins sem lög og réttarframkvæmd hafi mótað. Var J því sýknaður af kröfum B,“ segir í dómsorði.

Tveir skiluðu sératkvæði

Tveir dómarar skiluðu sératkvæði, Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Kristrún Kristinsdóttir. Í greinargerð þeirra segir að ekki sé hægt að skilja skrif Jóns Steinars á annan hátt en að hugarástand dómara við Hæstarétt hafi falið í sér að þeir hafi haft fyrirfram mótaðar hugmyndir um að sakfella fremur en sýkna í málum tengdum efnahagshruninu í samræmi við þær væntingar sem almenningur hafi haft til þeirra.

Segja grófa aðdróttun í ummælunum

Ummælin verði ekki skilin á annan veg en að Jón Steinar hafi haldið því fram að Benedikt hafi, gegn betri vitund, kveðið upp rangan dóm og sakfellt saklausan mann. Slík háttsemi af hálfu hæstaréttardómara feli í sér afar alvarlegt brot, hvort sem horft er til lögbundins hlutverks dómara og starfskyldna þeirra eða þeirra siðferðilegu krafna sem gerðar eru til dómara. Að auki kunni slík háttsemi að varða við almenn hegningarlög.

„Vandfundin er alvarlegri ávirðing í garð dómara. Fela ummælin því í sér grófa aðdróttun í garð aðaláfrýjanda í ljósi stöðu hans,“ segir í greinargerð dómaranna tveggja.

Niðurstaða þeirra er að umdeild ummæli feli í sér alvarlega aðdróttun sem ekki á sér neina stoð í staðreyndum málsins. Með því að viðhafa þau hafi Jón Steinar farið út fyrir það tjáningarfrelsi sem hann nýtur á grundvelli stjórnarskrárinnar og  mannréttindasáttmála Evrópu og brotið gegn þeim réttindum sem Benedikt nýtur til friðhelgi einkalífs. „Teljum við því að hin umdeildu ummæli gagnáfrýjanda beri að ómerkja í samræmi við kröfu aðaláfrýjanda, sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga,“ segir í sérálitinu. 

„Ummælunum var því ætluð almenn útbreiðsla innanlands og erlendis. Þá hefur gagnáfrýjandi hvorki dregið ummælin til baka né beðist á þeim afsökunar. Þvert á móti byggir hann öðrum þræði á því að þau séu rétt. Í ljósi þessa teljum við að aðaláfrýjandi eigi rétt til miskabóta úr hendi gagnáfrýjanda vegna hinna ólögmætu ummæla og jafnframt að gagnáfrýjanda beri að greiða aðaláfrýjanda málskostnað.“