Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Guðsmildi að enginn skyldi láta lífið“

Mynd: Hjalti Stefánsson / RUV
Forsetahjónin kynntu sér í dag hamfarirnar á Seyðisfirði og það hreinsunar- og endurreisnarstarf sem þar fer fram. Forsetinn segir að sér þyki afar vænt um gestrisni og góðvild Seyðfirðinga og það mikla æðruleysi sem ríki þar í samfélaginu.

„Ef það er eitthvað sem fólkið hérna sýnir okkur hinum er það æðruleysi og stilling og það nú það sem við þurfum á að halda í þessu lífi,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson í samtali við fréttastofu í morgun.

Guðni og Eliza Reid forsetafrú ætla að reyna að hitta sem flesta meðan á heimsókn þeirra til Seyðisfjarðar stendur. Þau hittu íbúa og ræddu við þá um afleiðingar skriðufallanna í desember.

Þau hittu kennara og starfsfólk Seyðisfjarðarskóla, svöruðu spurningum nemenda grunnskóladeildar og litu inn hjá leikskólabörnum. Því næst fengu þau leiðsögn um aðstæður á skriðusvæðinu.

Forsetahjónin kynntu sér stöð sem sett hefur verið upp til að hreinsa muni úr Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði, sem varð illa úti í skriðunum. Snjór er yfir öllu á Seyðisfirði sem dregur úr skriðusárunum í fjöllunum en það er erfitt að deyfa áhrifin eftir skriðuföllin í byggðinni.

„Þá sér maður vel hve ægilegt þetta áfall var,“ segir Guðni, „en um leið hversu mikil guðsmildi að enginn skyldi láta lífið í hamförunum.“ Hægt sé að bæta tjónið og það verði gert eftir bestu getu, nú taki við við annar áfangi.

„Rannsaka þarf hvað hægt sé að gera til að tryggja öryggi fólks á þessum fallega stað,“ sagði Guðni og bætti við að hlúa þurfi að heill og sálarlífi fólks. Forsetahjónin hittu einnig Björgunarsveitina Ísólf og ræddu við fulltrúa frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Rauða krossinum.

Að lokum heimsóttu hjónin Heilbrigðisstofnun Austurlands og spjölluðu við heimilisfólk hjúkrunarheimilisins Fossahlíðar. Guðni Th. Jóhannesson segir þau hjónin hafa notið mikillar gestrisni bæði Seyðfirðinga og Héraðsbúa í heimsókn sinni austur.