Gettu betur keppendur kvöldsins tilbúin í slaginn

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir - RÚV

Gettu betur keppendur kvöldsins tilbúin í slaginn

05.02.2021 - 12:30

Höfundar

Lið Menntaskólans í Kópavogi og Kvennaskólans í Reykjavík mætast í fyrstu viðureign átta liða úrslita Gettu betur á RÚV í kvöld klukkan 19:40. Liðin búa sannarlega yfir fjölbreyttri þekkingu en annað liðið veit þó lítið sem ekkert um fugla.

Lið Menntaskólans í Kópavogi er skipað þeim Agli Orra Elvarssyni, Gunnheiði Guðmundsdóttur og Jason Mána Guðmundssyni en liðið hefur ólíkan bakgrunn og víðfeðma þekkingu á sögu, landafræði, bókmenntum og knattspyrnu. Liðsmenn taka það þó öll fram að þekking þeirra á fuglum sé lítil sem engin. 

Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir / RÚV

Fyrir hönd Kvennaskólans keppa þau Áróra Friðriksdóttir, Ari Borg Helgason og Hildur Sigurbergsdóttir. Liðið nýtur þeirra forréttinda að við skólann kennir Ásdís Ingólfsdóttir sem er móðir Laufeyjar Haraldsdóttur, spurningahöfundar Gettu betur í ár, en liðsmenn telja það geta verið þeim til framdráttar. Liðið hefur víðtæka þekkingu á norsku konungsfólki, spendýrum og stjórnmálum en óttast mest spurningar um landafræði, kvikmyndir og bókmenntir. 

Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir / RÚV

Keppni kvöldsins hefst klukkan 19:40 á RÚV og er sú fyrsta í átta liða úrslitum Gettu betur.