Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm ferlega næs á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Greentea Peng

Fimm ferlega næs á föstudegi

05.02.2021 - 14:15

Höfundar

Hún er á hlýlegum suðrænum nótum Fimman að þessu sinni og boðið upp á huggulegan takt og trega frá Greentea Peng, trópíska tóna Bógótasveitarinnar Bomba Estéreo, brasílískan sambatakt Caixa Cubo, huggulegt sófarafpopp Rhye og að lokum sykursætt sálarpopp frá Serpentwithfeet.

Greentea Peng – Spells

Enska Neo Soul- og sækadelíudrottningin Greentea Peng sækir innblástur til Lauryn Hill og Erykuh Badu í laginu sínu Spells. Lagið kom út í byrjun desember en týndist í jólabókaflóðinu og er að koma upp úr því og fá þá athygli sem það á skilið þessa dagana.


Bomba Estéreo – Agua

Kólumbíska bandið Bomba Estéreo frá Bogotá hefur verið starfandi lengi og er þekkt í heimalandinu fyrir sína elektrótrópíkaltónlist og meðal annars fengið einar sjö tilnefningar til Latin Grammy-verðlaunanna. Hróður þeirra barst til margra okkar bleiknefja þegar sveitin túraði með Arcade Fire og gerði remix af lagi þeirra Everything Now, þó það sé einungis brot af því sem dúettinn hefur afrekað.


Caixa Cubo – Palavras

Brasilíska jazz-sveitin Caixa Cubo hefur verið starfandi frá hér-varð-hrun-árinu 2007 og gefið út nokkrar stórar plötur. Tríóið er eitt það virtasta í brasilískum nútíma-jazzi og gaf út sína sjöundu plötu, Angela, í lok síðasta árs þar sem hið sjúklega seiðandi lag Palavras er að finna.


Rhye – Come In Closer

Kanadíski tónlistarmaðurinn Michael Milosh hefur starfað undir nafninu Rhye í tæp tíu ár og gefið út fjórar stórar plötur. Sú nýjasta kom út í lok janúar og heitir Home og eins og á fyrri verkum Rhye loftar vel um huggulega sófarafpoppið auk þess að það er stutt í afslappaðan danstaktinn.


Serpentwithfeet – Fellowship

Fyrsta plata Serpentwithfeet, Soil, vakti mikla athygli þegar hún kom út 2018 og þótti vera með bestu plötum þess árs hjá gagnrýnendum Guardian, NPR, Spin og fleirum. Nú styttist í að erfiða plata númer tvö komi út. Hún á að heita Deacon og kemur út hjá Secretly Canadian, eins og sú fyrri, í lok mars.


Fimm á föstudegi á Spottanum