Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

EM í fótbolta 2024 og 2028 á RÚV

epa05601729 YEARENDER 2016 JUNE
Iceland players celebrate with their fans after the UEFA EURO 2016 group F preliminary round match between Iceland and Austria at Stade de France in Saint-Denis, France, 22 June 2016. Iceland won 2-1.  EPA/Abedin Taherkenareh   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: EPA

EM í fótbolta 2024 og 2028 á RÚV

05.02.2021 - 15:59
RÚV hefur tryggt sér sýningarréttinn að úrslitamótum karla í fótbolta 2024 og 2028. Áður hafði RÚV tryggt sér sýningarréttinn að EM kvenna 2022 og EM U21 drengja í vor.

Lokakeppni Evrópumóts karla 2024, UEFA EURO 2024, verður haldið í Þýskalandi en ekki er búið að úthluta lokakeppninni 2028, UEFA EURO 2028. 24 lið komast í lokakeppnina, ýmist í gegnum undanriðla EM eða umspil Þjóðadeildar UEFA, og hafa þjóðir því tvö tækifæri til að komast á EM. 

Ævintýrið 2016 í fersku minni

Mörgum er enn í fersku minni þegar Ísland komst í fyrsta skipti á EM árið 2016 í Frakklandi og fór alla leið í átta liða úrslit eftir eftirminnilegan 2-1 sigur á Englandi. Strákarnir okkar voru svo hársbreidd frá því að tryggja sér farseðil á EM í sumar en töpuðu naumlega fyrir Ungverjalandi í umspili um laust sæti. Framtíðin er hins vegar björt og U21-landslið karla tryggði sér í annað sinn sæti í lokakeppni EM sem hefst í mars og verður í beinni útsendingu á RÚV. 

Áður hafði RÚV tryggt sér sýningarréttinn á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á Englandi sumarið 2022 þar sem íslenska kvennalandsliðið verður í eldlínunni. Þetta er í fjórða skipti í röð sem íslenska kvennalandsliðið kemst á EM. Liðið tók fyrst þátt í EM í Finnlandi árið 2009  og svo í Svíþjóð 2013 þegar liðið náði sínum besta árangri og komst í átta liða úrslit. Síðast tók kvennalandsliðið þátt í EM 2017 í Hollandi. Margar landsliðskonur hafa síðustu vikur samið við erlend félagslið og má búast við sterku íslensku liði sem mætir til leiks á Englandi á næsta ári.

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða, að þessir stóru og mikilvægu íþróttaviðburðir á heimsvísu verði aðgengilegir öllum hér á landi. Það er eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins að leggja rækt við íþróttir og sinna stórviðburðum á borð við úrslitamót EM karla og kvenna í knattspyrnu,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.