Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ekki eðlilegt að fattarinn sé svona langur“

05.02.2021 - 15:34
Mynd: Skjáskot / RÚV
Lækkun kosningaaldurs úr 18 ára í 16 myndi bæta samfélagið. Málefni ungs fólks eiga sjaldan greiða leið inn á Alþingi og Ísland er eitt þeirra landa þar sem enginn þingmaður er undir þrítugu. Þetta segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka sem hefur lagt fram frumvarp um lækkun kosningaaldurs úr 18 í 16 ár ásamt nokkrum þingmönnum Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar.

Andrés Ingi var gestur Síðdegisútvarps Rásar tvö í gær.

Áþekk frumvörp hafa verið lögð fram áður, en Andrés Ingi segist vongóður um að þetta nái fram að ganga. Hægt er að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum án þess að breyta stjórnarskránni, en til að lækka aldurinn í öðrum kosningum þarf stjórnarskrárbreytingar við. Verði frumvarpið samþykkt, með breytingum á stjórnarskránni í haust,  mun kosningaaldurinn lækka í næstu kosningum eftir það, sem væntanlega verða sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári.

„Það sem ég held að sé aðalatriðið er að þetta myndi gera samfélagið betra. Við erum í þeirri stöðu núna að það er enginn þingmaður á Íslandi undir þrítugu. Við sjáum í mörgum málaflokkum að málefni sem snerta ungt fólk, frekar en okkur sem erum eldri,  eiga oft erfitt með að komast inn í þingið,“ sagði Andrés Ingi.

Hann nefndi sem dæmi málefni háskólastúdenta. Þá væri núna til meðferðar lög um kynferðislega friðhelgi gegn stafrænu kynferðisofbeldi sem ungt fólk hefði bent á fyrir mörgum árum. 

„Það getur ekki verið eðlilegt að fattarinn sé svona langur hjá stjórnmálunum þegar kemur að ungu fólki. Ég held að það sé út af því að stjórnmálafólk lítur ekki á fólk undir kosningaaldri sem sína aðalumbjóðendur, en ég held að það myndi lagast ef allt í einu væru þarna tveir nýir árgangar komnir sem myndu heimta að við gerðum eitthvað. Þeirra hagsmunir ná svo langt fram í framtíðina, þau munu lifa út þessa öld, þau munu sjálfkrafa krefjast þess að stjórnmálamenn hugsi til lengri tíma.“

Andrés Ingi segir að betur þyrfti að standa að fræðslu fyrir ungt fólk sem kemst á kosningaaldur. Ómögulegt sé að segja til um hvort kosningaþátttaka yrði mikil meðal fólks á aldrinum 16-18 ára, en ákall hafi verið frá samtökum ungs fólks um að lækka kosningaaldurinn og frumvarpið sé svar við því. Hann segir að líklega myndi ásýnd stjórnmálanna breytast og hvernig stjórnmálaflokkarnir móta stefnu sína.

„Við erum allt of oft í þeirri stöðu, þegar við erum að ganga frá listum fyrir kosningar, að það er fullorðið og „alvöru“ fólk í efstu sætum og svo er farið að skreyta með allskonar dóti þar fyrir neðan. Þar allt í einu birtist allt unga fólkið og fólk sem tilheyrir ýmsum öðrum hópum, sem eru nauðsynlegir til að listinn geti endurspeglað margbreytileika. En við skulum gera þá kröfu að sá margbreytileiki nái alla leið upp í rjáfur, upp í efstu sæti líka. Þriðja hvert þing í heiminum er með engan þingmann undir þrítugu og við erum eitt af þeim. Við erum í tossabekknum í þessu.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir