Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Efla þarf vitund um krabbameinshættu af völdum áfengis

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Bindindissamtökin IOGT á Íslandi segja áfengisneyslu vera leiðandi áhættuþátt fyrir krabbamein en vitund almennings og viðbrögð og stefnu yfirvalda þar að lútandi sé enn ábótavant.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu samtakanna í tilefni alþjóðadags krabbameina sem var í gær 4. febrúar. „Staðreyndin að áfengi er krabbameinsvaldandi hefur verið skýrt staðfest,“ segir Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri samtakanna.

Í samtali við fréttastofu segir Aðalsteinn að forvarnir samtakanna byggist upp á lagaumhverfi sem takmarki aðkomu og þrýsting áfengisiðnaðarins og góðu samstarfi við þau sem komi að uppeldi barna og ungmenna. Hann segir íslenskar forvarnir hafa vakið athygli um allan heim. 

„Áfengi veldur 650 þúsund dauðsföllum á hverju ári sem tengist krabbameinum,“ segir Aðalsteinn. Asetaldehýð er það efni í áfengi sem hefur mestu eituráhrifin á líkamann og getur valdið krabbameini.

Það kemur meðal annars fram í skrifum Láru G. Sigurðardóttur, læknis og doktors í lýðheilsuvísindum á Vísindavef HÍ í apríl 2018. Asetaldehýð er eiturefni sem myndast við niðurbrot etanóls í lifrinni og veldur roða í andliti, aukinni svitamyndun, ógleði og hraðari hjartslætti.

Eftir því sem fleiri rannsóknir birtast hefur áfengi verið tengt við æ fleiri tegundir krabbameina en eitrunaráhrif geta komið fram séu drukknir fleiri en einn eða tveir áfengir drykkir drukknir daglega.

Í tilkynningu IOGT segir að helsti áhættuþátturinn fyrir brjóstakrabbameini á heimsvísu sé áfengi og að mikill hluti áfengistengds krabbameins komi til vegna tiltölulega lítillar áfengisneyslu.

Aðalsteinn segir áfengi vera næst algengustu orsök krabbameins á eftir tóbaki og langt á undan öðrum áhættuþáttum. „Gögn sýna það, að upplýsa fólk, auka vitund og skilning á krabbameinsáhættu vegna áfengis leiðir til meiri stuðnings við áfengisforvarnir og áfengislögin,“ segir hann.

Aðalsteinn kveðst jafnframt sannfærður um að aukin skattlagning, hertar reglur um aðgengi og bann við auglýsingum muni draga mjög úr dánartíðni vegna krabbameins af völdum áfengis.