Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

COVAX að hefja bóluefnasendingar til þróunarríkja

05.02.2021 - 19:38
epa08951841 A doctor administers the Pfizer-BioNTech vaccine at a vaccination centre in Salisbury Cathedral in Salisbury, Britain, 20 January 2021. More than four million people in the UK have received their first dose of a Covid-19 vaccine, according to government figures. People in their 70s and the clinically extremely vulnerable in England are now among those being offered the vaccine.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bólusettir einstaklingar eru nú fleiri en tilkynnt Covid 19 tilfelli. Byrjað verður að bólusetja gegn Covid nítján í fátækari ríkjum á næstu vikum á vegum Covax-samstarfsins. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetur til að framleiðslu bóluefna verði hraðað.

 

COVAX-samstarfið hefur það markmið að tryggja að öll lönd fái bóluefni óháð efnahag. Engu að síður hefur meirihluti bóluefna sem hingað til hefur verið dreift farið til ríkari landa - en nú á að breyta því.

Tilkynnt hefur verið að hátt í níutíu milljónum skammta verði dreift til landa í Afríku í þessum mánuði í gegnum þetta samstarf. Það dugar skammt en verður aðeins byrjunin. Senda á 1,3 milljarða skammta af bóluefnum til 92 fátækra ríkja fyrir árslok. Meðal annars hefur komið fram að Norður-Kórea hefur beðið um tvær milljónir skammta, þrátt fyrir að enginn sé smitaður þar samkvæmt opinberum tölum.

Tedros Adhanom Ghebreyesu forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar benti hins vegar á í dag að það væri ekki nóg að þau sem stæðu að samstarfinu væru tilbúin. „Þjóðirnar eru til í slaginn. En bóluefnin eru ekki komin,“ sagði hann.

Gebreyesus sagði að auka þyrfti framleiðslu bóluefna til að þessar spár gengju eftir. Meðal annars ættu framleiðendur að deila gögnum svo framleiðslan gæti farið fram víðar en nú er. Hann gladdist þó yfir því að nú væru bólusettir einstaklingar fleiri en tilkynnt Covid 19 smit. „En yfir 75% af þessum bólusetningum eru í aðeins tíu löndum, sem eru ábyrg fyrir 60% af vergri landsframleiðslu heimsins. Næstum 130 lönd með 2,5 milljarða íbúa hafa ekki bólusett einn einasta mann.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV