Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjartsýn á samþykki samninga við Alcoa Fjarðaál

05.02.2021 - 14:30
Frá undirritun nýs kjarasamnings milli AFLs starfsgreinafélags, Rafiðnaðarsambands Íslands og Alcoa Fjarðaáls sem fram fór í matsal Fjarðaáls, 4. febrúar 2021. Í fremstu röð sitja f.v. Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, Guðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli og Smári Kristinsson framkvæmdastjóri rekstrarþróunar hjá Alcoa Fjarðaáli. Samninganefndin stendur þeim að baki auk Tors Arne Berg forstjóra Fjarðaáls.
 Mynd: Fjarðaál
Nýr kjarasamningur milli Alcoa Fjarðaáls, AFLs starfsgreinafélags og Rafiðnarsambands Íslands var undirritaður á Reyðarfirði 4. febrúar. Samningurinn er afturvirkur frá 1. mars 2020 en eldri samningur rann út 29. febrúar.

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, segir í samtali við fréttastofu að samningaviðræður hafi í raun staðið yfir frá haustinu 2019. Þeim var frestað síðastliðið vor til haustsins vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. 

Eftir að upp úr kjaraviðræðum slitnaði um miðjan desember var deilunni vísað til Ríkissáttasemjara sem hafði milligöngu um samninginn, sem ætlað er að gilda í þrjú ár. Hjördís Þóra segir 6,9% afturvirku hækkunina koma í einni greiðslu þegar samningarnir hafa verið samþykktir.  

Samningurinn felur í sér launahækkanir og styttingu vinnutíma, hvort tveggja í líkingu við það sem samið hefur verið um nýlega hjá hinum íslensku álverunum tveimur að því er fram kemur í tilkynningu frá Alcoa Fjarðaáli.

Samningurinn er jafnframt sagður í samræmi við Lífskjarasamninginn frá því í apríl 2019. Tor Arne Berg, forstjóri Alcoa Fjarðaáls segir mikla kjarabót fyrir starfsfólkið felast í samningnum.

Hjördís Þóra segir henni þyki hafa náðst ásættanleg niðurstaða. Verið sé að stytta vinnutíma vaktavinnufólks enn frekar, en samkomulag náðist um styttingu vinnutíma þess í kjarasamningum 2015. Nú styttist einnig vinnutími dagvinnufólks.

Sömuleiðis segir forstjóri Fjarðaáls að jafnvægi milli vinnu og einkalífs aukist, sem sé áríðandi fyrir fjölbreyttan vinnustað. Aðkoma Ríkissáttasemjara hafi komið að góðu gagni að hans sögn og að samskipti við verkalýðsfélögin hafi verið góð í löngu og ströngu samningaferli.

Nú tekur við kynning á efni kjarasamningsins fyrir starfsfólki og atkvæðagreiðsla um hann. Að sögn Hjördísar Þóru hefur félagið frest til 3. mars að ljúka atkvæðagreiðslunni. „Ég leyfi mér að vera bjartsýn um að samningarnir verði samþykktir.“