Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Afstaða telur föngum mismunað um reynslulausn

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, telur föngum mismunað hvað varðar reynslulausn, með ómálefnalegum og handahófskenndum hætti. Afstaða fagnar þó lengingu samfélagþjónustu og segir frumvarpið að öðru leyti gott og gilt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Afstöðu um frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um fullnustu refsinga, þar sem segir að „Afstaða telur að áframhaldandi framkvæmd reynslulausnar verði íslenska ríkinu til minnkunar“.

Í umsögninni segir að fella beri brott 2. mgr. 80. greinar núgildandi laga, enda skorti hana stjórnskipulegt gildi né eigi hún tilvist í almannahagsmunum, áhættumati eða almennum tilgangi reynslulausnarreglunnar.

Annars staðar njóti fangar jafnfræðis þegar komi að losun úr fangelsi. Boðuð breyting á lögunum skapi réttaróvissu og ójafnræði þar sem gert sé ráð fyrir fimm eða tíu daga frádrætti en ekki hlutfallslegum. Því sé föngum mismunað á grundvelli lengdar þeirrar fangavistar sem þeir voru dæmdir til.

Afstaða telur einnig að íslensk lagafyrirmæli sem kveði á um mismunun fanga, á grundvelli eðlis afbrots, hvað varðar reynslulausn sé ekki aðeins andstæð Stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu, heldur séu þau úr takti við skilning og reglur annarra þjóða sem lögtekið hafa Mannréttindasáttmálann.

Í samráðgátt stjórnvalda segir að meginmarkmið frumvarpsins sé að stytta listann yfir þá einstaklinga sem bíða fullnustu refsingar hjá Fangelsismálastofnun, svokallaðan boðunarlista.

Umtalsvert hafi fjölgað á þeim lista undanfarin ár sem valdi því að meðalbiðtími eftir afplánun hafi lengst og að óskilorðsbundnum dómum sem fyrnast hafi fjölgað.

Síðastliðið vor skipaði dómsmálaráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að móta tillögur sem gætu leitt til styttingar boðunarlistanna. Hópurinn skilaði skýrslu í júní sama ár og með frumvarpinu er brugðist við tillögum úr henni varðandi reynslulausn og samfélagsþjónustu.