Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

230 ökutæki skemmdust og heildartjón um 30 milljónir

05.02.2021 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Um 230 ökutæki urðu fyrir tjóni í bikblæðingum í desember. Heildartjónið nemur tæpum 30 milljónum. Vegagerðin hefur til skoðunar að setja á þungatakmarkanir. Varað er við bikblæðingum á Vesturlandi í dag.

Miklar bikblæðingar urðu á vegum á Norður- og Vesturlandi um miðjan desember. Slíkar blæðingar verða yfirleitt þegar veghiti hækkar mikið. Töluverð hætta skapaðist og fjöldi bíla varð fyrir tjóni.

Vegagerðin hefur nú tekið saman hversu margir bílar urðu fyrir tjóni. 

„Við erum búin að fá tilkynningar um einhver 230 ökutæki sem urðu fyrir tjóni,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Hver er heildarupphæð þessara tjóna?

„Mér sýnist á þeim tölum sem eru komnar að þetta séu um 29 milljónir króna, eða rúmlega það.“

Er þetta tjón sem Vegagerðin þarf að greiða eða er hún tryggð fyrir þessu?

„Nei við sjáum um þessar tryggingar sjálf þannig að við þurfum að borga þetta.“

Þungatakmarkanir og lokanir

Pétur segir að ekki sé hægt að koma í veg fyrir blæðingar og því hafi Vegagerðin leitað leiða til þess að tjón sem þetta verði sem minnst.

„Og við erum með það til skoðunar og það kemur til greina að setja á þungatakmarkanir þó þetta sé mikilvægasta flutningaleiðin á milli landshluta, eða jafnvel að loka vegum þegar svona kemur upp.“

Og í morgun varaði Vegagerðin við blæðingum á vegum á Vesturlandi, nánar tiltekið í Svínadal og Reykhólasveit.

„Í þessum töluðu orðum eru okkar menn að skoða þetta. Þetta er nú vonandi eitthvað minniháttar og lítur þannig út núna,“ segir Pétur.