Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stjarnan á toppinn í körfunni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Stjarnan á toppinn í körfunni

04.02.2021 - 22:16
Fjórir leikir voru á dagskrá í Dominos deild karla í körfubolta í kvöld. Stjarnan fór á topp deildarinnar með góðum útisigri á Njarðvík.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af en Stjörnumenn tóku svo að stýra leiknum þegar á leið. Þeir leiddu með níu stigum í hálfleik 46-55. Fjórum stigum munaði hins vegar þegar liðin fóru inn í lokaleikhlutan 73-77. Gestirnir reyndust hins vegar sterkari í lokaleikhlutanum og fóru að lokum með 8 stiga sigur af hólmi 88-96. Ægir Þór Steinarsson var allt í öllu í liði Stjörnunnar og gerði 19 stig og átti 11 stoðsendingar. Sigurinn skilar Stjörnunni toppsætinu í deildinni með 12 stig - jafn mörg og Keflavík í öðru sætinu.

Þá náði Höttur sér í mikilvæg stig í neðri hlutanum þegar liðið vann sannfærandi 95-70 stiga sigur á Þór frá Akureyri. Með því jafnar Höttur Þór A að stigum og fer upp fyrir þá í 10. sætið með 4 stig.

Tindastóll fékk botnlið Hauka í heimsókn á Sauðárkrók. Heimamenn leiddu allan leikinn og unnu að lokum góðan 86-73 sigur og eru nú með 8 stig um miðja deild, jafn mörg og ÍR, KR og Njarðvík.
 
Þór Þorlákshöfn gerði sér góða ferð í Origo höllina þar sem þeir mættu Val og unnu 19 stiga sigur. Valsarar leiddu með þremur stigum í hálfleik 42-39. Gestirnir fóru hins vegar með 8 stiga forystu inn í lokaleikhlutann og unnu að lokum 67-86. Valur er nú með 6 stig í 9. sæti deildarinnar en Þór Þorlákshöfn fer upp í fjórða sætið með jafn mörg stig og Grindavík í þriðja sæti deildarinar.